Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn með fjóra menn í borginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Miklar sviptingar eru á fylgi þeirra flokka sem bjóða fram lista í borgarstjórnarkosningunum á morgun.

Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR. Könnunin var framkvæmd dagana 29. til 30. maí 2014 og var heildarfjöldi svarenda 918 Reykvíkingar, 18 ára og eldri

Samanlagt fylgi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar mælist nú 49,4% borið saman við 53,5% frá síðustu könnun (sem stóð yfir dagana 26. til 28. maí síðastliðinn).

Vinstri-græn og Píratar endurheimta fylgi en það dregur úr stuðningi við Bjarta framtíð. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 18,2% borið saman við 22,2% í síðustu könnun.

Vinstri-græn mælast nú með 10,0% en þau fengu 6,8% í þeirri síðustu og fylgi Pírata bæta við sig rúmu einu og hálfu prósentustigi á milli kannanna, fara úr 7.5% upp í 9,2%.

Framsókn og flugvallarvinir tapa örlitlu fylgi milli kannanna, fara úr 6,8% niður í 6,7%.

Þessar sviptingar valda því að Sjálfstæðisflokkur bætir við sig fjórða borgarfulltrúanum, Áslaugu Maríu Friðriksdóttur, þrátt fyrir að hann mælist með lægra fylgi milli kannanna, fer úr 21,6% niður í 21,4%.

Yrðu þetta niðurstöður kosninganna myndi Samfylkingin fá fimm borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkur sem fyrr segir fjóra, Björt framtíð þrjá og Píratar, Vinstri græn og Framsóknarflokkur og flugvallarvinir einn borgarfulltrúa hvert framboð.

Hér má sjá nánari útlistun á niðurstöðunum.MYND/MMR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×