Skoðun

Sviss norðursins

Ingólfur Árni Gunnarsson skrifar
Píratar vilja auka aðkomu almennings að ákvörðunum á sveitarstjórnarstigi. Reykjavíkurborg hefur gert tilraun með rafræna samráðsvettvanginn „Betri Reykjavík“ og hann er skref í rétta átt en galli þess tilraunaverkefnis er að það hefur einskorðast við minni og staðbundnari mál.

Eftir vel heppnaðar Icesave kosningar hafa kröfur um aðkomu almennings að mikilvægum málum á Íslandi sífellt orðið háværari. Illa hefur gengið að koma nýjum ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur inn í stjórnarskrána en í núgildandi sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir þeim möguleika að ráðgefandi sem og bindandi íbúakosningar séu haldnar. Með smávægilegum breytingum á sveitarstjórnarlögum væri hægt að styðjast við rafrænar íbúakosningar á sveitarstjórnarstigi sem myndi gera kosningar auðveldari og ódýrari í framkvæmd.

Píratar í Kópavogi vilja ekki einskorða þátttöku almennings í ákvörðunartökunni við minni málin. Við teljum að bæjarfulltrúum væri hollt að hafa í huga að tillögur sem þeir bera fram í bæjarstjórn gætu lent í íbúakosningu.  Það eitt að mál gætu endað í íbúakosningu væri gott aðhald að stjórnsýslunni.  Myndi til dæmis einhverjum detta í hug að stinga upp á því að þrefalda laun bæjarfulltrúa í einu stökki eða að byggja golfskála fyrir 630 milljónir króna ef slík ákvörðun yrði borin undir bæjarbúa?  Ég held ekki.

Við Píratar viljum að Kópavogsbúar fái að hafa meira að segja um rekstur bæjarins og við ættum að líta til Sviss sem fyrirmyndar í þeim málum. Svisslendingar eru ekki hræddir við að leyfa þjóðinni að ráða.  Þeir halda reglulegar þjóðar­atkvæðagreiðslur um hin ýmsu mál.  Núna í maí kusu þeir til dæmis um kaup á herþotum frá Svíþjóð og hvort koma ætti á lágmarkslaunum í landinu.

Ísland varð ekki að Kúbu norðursins eftir Icesave kosningarnar en kannski getur Kópavogur orðið Sviss norðursins ef Píratar komast til áhrifa í Kópavogi. 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×