Innlent

Heimdallur gagnrýnir tillögur Samfylkingar í húsnæðismálum

Randver Kári Randversson skrifar
Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar.
Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar.
Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, gagnrýnir tillögur Samfylkingarinnar sem fela í sér að borgaryfirvöld fari í samkeppni á leigumarkaði.

Félagið telur að borgaryfirvöld eigi ekki að vera í leigustarfsemi, heldur megi leysa húsnæðisvanda ungs fólks með markaðsmiðuðum lausnum. Fjölga þurfi íbúðum og lækka leiguverð.

Þá telur félagið að afnám fjármagnstekjuskatts á leigutekjur myndi örva íslenskan leigumarkað og útrýma svartri leigu. 

Þetta kemur fram í ályktun frá Heimdalli um húsnæðismál ungs fólks í Reykjavík, en hún hjóðar svo í heild sinni:

Ungt fólk á milli steins og sleggju

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, harmar stöðu húsnæðismála ungs fólks. Yfir 1000 nemar eru á biðlista eftir stúdentaíbúðum og þúsundir fleiri í leit að húsnæði við hæfi.

Staðan er sú í dag að það er mun dýrara fyrir ungt fólk að flytja að heiman en á árum áður. Velmeinandi, en íþyngjandi reglugerðir, lóðaskortur og háir skattar stuðla að háu húsnæðisverði svo erfitt er fyrir einkaaðila að koma til móts við þarfir ungs fólks sem vill ódýrt húsnæði. Ekki er langt síðan lóðaverð var 4% af byggingakostnaði en í dag er sami kostnaðarliður 17%. Einnig eru borguð jafnhá lóða- og gatnagerðargjöld vegna 35 fermetra íbúðar og 135 fermetra íbúðar, en vegna þess er hagstæðara að byggja stórar íbúðir fremur en smáar. Félagið bendir líka á að afnám fjármagnstekjuskatts á leigutekjur væri mikil örvun fyrir íslenskan leigumarkað og mundi útrýma svartri leigu.

Að lokum vill félagið gagnrýna tillögur Samfylkingarinnar sem fela í sér að borgaryfirvöld fari í samkeppni á leigumarkaði. Borgaryfirvöld eiga svo sannarlega ekki að vera í leigustarfsemi, sérstaklega þegar hægt er að leysa húsnæðisvandann með markaðsmiðuðum lausnum án þess að blása út velferðarþjónustu hins opinbera, sem er alltof stór fyrir.

Fjölga þarf íbúðum og lækka leiguverð - en ekki á kostnað skattgreiðenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×