Körfubolti

Bjarni tekur við ÍR-ingum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni tekur slaginn í Dominos-deild karla næsta vetur.
Bjarni tekur slaginn í Dominos-deild karla næsta vetur. Vísir/valli
Bjarni Magnússon, þjálfari bikarmeistara Hauka í körfubolta kvenna, hefur verið ráðinn þjálfari ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta.

Þetta kemur fram á heimasíðu ÍR en Bjarni tekur við starfinu af Örvari Þór Kristjánssyni sem hætti sem þjálfari liðsins í vor eftir eitt tímabil við stjórnvölinn.

Bjarni hefur undanfarin þrjú ár þjálfað kvennalið Hauka og gerði liðið sem fyrr segir að bikarmeisturum á síðasta tímabili og þá komst liðið í lokaúrslit Íslandsmótsins þar sem það tapaði fyrir Snæfelli.

ÍR gerir þriggja ára samning við Bjarna og bindur miklar vonir við komu hans til félagsins, að því fram kemur á heimasíðu Breiðholtsfélagsins.

ÍR hafnaði í níunda sæti á síðasta keppnistímabili og rétt missti af sæti í úrslitakeppninni. Það komst aftur á móti í bikarúrslit þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Grindvíkingum.

„Liðið ætlar sér stóra hluti á komandi árum og lítur stjórnin á ráðningu Bjarna sem skref í því ferli að klífa hærra í deild þeirra bestu,“ segir í tilkynningu um ráðningu Bjarna á heimasíðu ÍR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×