Körfubolti

NBA í nótt: Westbrook skoraði 40 stig í sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oklahoma City Thunder jafnaði í nótt metin í rimmu sinni gegn San Antonio Spurs í úrslitum vestursins í NBA-deildinni.

Oklahoma City vann leikinn, 105-92, og er staðan nú 2-2 í einvíginu. Russell Westbrook fór á kostum í nótt en hann skoraði 40 stig, gaf tíu stoðsendingar og stal fimm boltum.

Kevin Durant hrósaði Westbrook mikið í viðtölum eftir leikinn en sá síðarnefndi var með 50 prósenta skotnýtingu og nýtti öll fjórtán vítaskotin sín í leiknum.

Durant skilaði þó einnig sínu og skoraði 31 stig. Þetta var hans stigahæsti leikur í rimmunni en hann hafði skorað 22,7 stig að meðaltali í fyrstu þremur.

Endurkoma Serge Ibaka hefur greinilega frábær áhrif á lið Thunder en hann var með níu stig og átta fráköst. „Við bara spilum vel með Serge,“ sagði Scott Brooks, þjálfari liðsins, eftir leikinn í nótt. „Við getum gert hluti með honum sem er einfaldlega ekki hægt að gera með öðrum.“

Boris Diaw og Tony Parker voru með fjórtán stig hvor fyrir San Antonio sem á næsta leik á heimavelli aðfaranótt föstudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×