Körfubolti

Matthías Orri verður áfram í Breiðholtinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Matthías Orri í leik á móti uppeldisfélaginu KR í vetur.
Matthías Orri í leik á móti uppeldisfélaginu KR í vetur. Vísir/Daníel
Matthías Orri Sigurðarson, leikstjórnandi ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið og leikur með því áfram næsta vetur.

Þetta kemur fram á mbl.is en Matthías Orri spilaði frábærlega í vetur á sinni fyrstu leiktíð sem byrjunarliðsmaður. Þessi 19 ára gamli leikstjórnandi skoraði að meðaltali 16,8 stig og gaf 6,7 stoðsendingar á tímabilinu.

Hann tók virkan þátt í „þrennuvetrinum mikla“ en Matthías Orri náði þrívegis þrefaldri tvennu á tímabilinu. Hann er bróðir atvinnu- og landsliðsmannsins Jakobs Örn Sigurðarsonar.

Samkvæmt heimildum Vísis sóttust átta af tólf liðum Dominos-deildarinnar eftir kröftum Matthíasar en í Hertz-hellinum stíga menn nú væntanlega gleðidans yfir því að framlengja við piltinn.

ÍR er enn án þjálfara en Njarðvíkingurinn Örvar Þór Kristjánsson lét af störfum hjá liðinu eftir tímabilið en hann stýrði Breiðhyltingum í eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×