Innlent

"Hún getur sagt af sér eftir kosningar, það er ekkert hægt öðruvísi“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Áskell segir það ekki koma til greina að taka Bylgju út af listanum fyrir kosningar.
Áskell segir það ekki koma til greina að taka Bylgju út af listanum fyrir kosningar. vísir/pjetur
Bylgja Dröfn Jónsdóttir, 29 ára kona á Egilsstöðum, skipar nú þriðja sæti á lista Endurreisnar - lista fólksins í Fljótsdalshéraði eftir misskilning sem átti sér stað á afgreiðslukassa í Nettó. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Áskell Einarsson, bóndi í Fljótsdalshéraði sem skipar efsta sæti listans, talaði við Bylgju við kassann og segist hann hafa boðið henni að skipa þriðja, áttunda eða níunda sæti listans. Sjálf segist Bylgja hafa haldið að hún væri að skrifa undir meðmæli með listanum.

„Þetta er mjög fyndið,“ segir Bylgja í samtali við Vísi. „Mig grunaði aldrei að ég væri að setja mig á einhvern lista.“

Aðspurð hvort hún hyggist skella sér af krafti í kosningabaráttuna segir hún svo ekki vera.

„Nei alls ekki. Ég hef engan áhuga á því. Ég er bara að vinna í því að ná mér af þessum lista en það gengur eitthvað mjög illa.“

Áskell er harður á því að ekki sé um misskilning af sinni hálfu að ræða.

„Þetta er kannski misskilningur en ekki af minni hálfu. Hún skrifaði þetta með eigin hendi. Það voru þrjú sæti laus og hún tók þriðja sætið.“

Áskell segir það ekki koma til greina að taka Bylgju út af listanum fyrir kosningar.

„Hún getur sagt af sér eftir kosningar, það er ekkert hægt öðruvísi. Ég samþykki það að hún gangi út þegar búið er að kjósa. En það er búið að leggja fram listann og það er ekkert hægt að gera fyrr en eftir kosningar, það er ekki flókið.“

Allar fréttir af sveitarstjórnarkosningunum 2014 má nálgast á Kosningavef Vísis, visir.is/kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×