Fótbolti

Bayern München tvöfaldur meistari annað árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arjen Robben skorar fyrsta mark leiksins.
Arjen Robben skorar fyrsta mark leiksins. Vísir/Getty
Bayern München tryggði sér þýska bikarmeistaratitilinn með 2-0 sigri á Dortmund í úrslitaleik sem fór fram á Ólympíuleikvanginum í Berlín.

Þetta er annað árið í röð sem Bayern verður bikarmeistari (í 17. sinn alls) og jafnframt annað árið í röð sem liðið vinnur bæði deild og bikar í Þýskalandi. Það er því óhætt að segja að Spánverjanum Pep Guardiola hafi tekist nokkuð vel til á sinni fyrstu leiktíð með þýska stórliðið.

Leikurinn var heldur tíðindalítill, en Dortmund komst næst því að skora í venjulegum leiktíma þegar Dante, varnarmaður Bayern, bjargaði á línu frá Mats Hummels. Leikmenn Dortmund vildu meina að boltinn hefði verið kominn inn fyrir línuna, en dómararnir voru ekki á sama máli

Bayern reyndist sterkara í framlengingunni. Arjen Robben kom liðinu yfir á 107. mínútu eftir fyrirgjöf frá Jerome Boateng. Stuðningsmenn Dortmund eru líklega komnir með nóg af Hollendingnum, en hann skoraði einnig sigurmarkið þegar liðin mættust í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðasta vor.

Thomas Müller gulltryggði svo sigurinn þegar hann skoraði annað mark Bayern í uppbótartíma framlengingarinnar eftir skyndisókn.

Þetta var síðasti leikur pólska framherjans Roberts Lewandowski fyrir Dortmund, en hann gengur í raðir Bayern að tímabilinu loknu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×