Fótbolti

Björn Daníel skoraði í sigri Viking sem fór á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Daníel Sverrisson í leik með FH síðasta sumar.
Björn Daníel Sverrisson í leik með FH síðasta sumar. Vísir/Valli
Björn Daníel Sverrisson opnaði markareikning sinn hjá Viking í dag þegar hann skoraði seinna mark liðsins í 2-1 sigri á Aalesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Viking-liðið er að byrja tímabilið vel en þetta var fimmti deildarsigur liðsins í röð. Liðið gerði jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum en hefur síðan unnið alla leiki. Þessi sigur kom Viking upp í efsta sæti deildarinnar.

Björn Daníel skoraði markið sitt á 56. mínútu eftir stoðsendingu frá landa sínum Steinþóri Frey Þorsteinssyni en hann kom Viking þá í 2-0. Fyrra mark liðsins var líklega sjálfsmark Aalesund-manna á 35. mínútu þrátt fyrir að Sverrir Ingi Ingason fengi markið skráð á sig á einhverjum norsku miðlanna.

Aalesund minnkaði muninn á 76. mínútu eða aðeins tveimur mínútum eftir að Jón Daði Böðvarsson var tekinn af velli.

Indriði Sigurðsson og Sverrir Ingi Ingason léku allan leikinn í miðri vörn Viking, Jón Daði byrjaði leikinn upp á toppi og þeir Björn Daníel Sverrisson og Steinþór Freyr Þorsteinsson léku allar 90 mínúturnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×