Fótbolti

Guðmundur lagði upp sigurmark Sarpsborg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur lagði upp mark í sigri í Sarpsborg á Sandnes Ulf.
Guðmundur lagði upp mark í sigri í Sarpsborg á Sandnes Ulf. Heimasíða Sarpsborg
Tveimur leikjum er lokið í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Guðmundur Þórarinsson og Þórarinn Ingi Valdimarsson voru báðir í byrjunarliði Sarpsborg 08 sem vann góðan heimasigur á Sandnes Ulf með tveimur mörkum gegn einu.

Sandnes komst yfir með marki Fredriks Midtsjø, en Jeremy Berthod jafnaði leikinn sjö mínútum fyrir leikhlé. Það var síðan Nígeríumaðurinn Aaron Samuel sem skoraði sigurmark Sarpsborg á 74. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Guðmundar. Sarpsborg lék síðustu 25 mínútur leiksins einum færri eftir að Ole Christoffer Heieren Hansen fékk að líta rauða spjaldið.

Þórarinn lék allan leikinn fyrir Sarpsborg en Guðmundur fór af velli þegar fimm mínútur voru eftir. Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson stóð allan tímann í marki Sandnes.

Þá vann Álasund 2-1 sigur á Haugesund á útivelli. Sakari Mittila kom Álasund yfir undir lok fyrri hálfleiks og eftir tólf mínútna leik í seinni hálfleik bætti Torbjørn Grytten við marki fyrir gestina. Á 65. mínútu minnkaði Daniel Bamberg muninn fyrir Haugesund, en nær komust heimamenn ekki.

Síðar í dag fara svo fram fjórir leikir í norsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×