Körfubolti

Sex af sjö spá KR-ingum Íslandsmeistaratitlinum - fyrsti leikur í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Vísir/Daníel
Fréttablaðið fékk sjö reynda menn úr Dominos-deild karla til þess að spá um hvernig úrslitaeinvígi KR og Grindavíkur fari en fyrsti leikurinn er í DHL-höllinni í Frostaskjóli klukkan 19.15 í kvöld. Allir leikir úrslitaeinvígisins verða í beinni á Stöð 2 Sport.

KR beið í fjóra daga til að fá að vita um mótherja sína en Grindavík tryggði sér sætið með sigri í oddaleik á móti Njarðvík. Þetta verður þriðja einvígi KR og Grindavíkur um titilinn en KR vann bæði 2000 (3-1) og 2009 (3-2). Grindavík hefur unnið titilinn tvö undanfarin ár en KR vann hann síðast vorið 2011.

Sex af sjö spámönnum eru á því að KR verði meistari, allir nema Örvar Þór Kristjánsson fráfarandi þjálfari ÍR, en fjórir þeirra búast við að úrslitin ráðist í oddaleik eins og þegar Grindavík vann í fyrra. KR er með heimavallarréttinn og það lið hefur unnið titilinn undanfarin þrjú ár og alls fimm sinnum á síðustu sex árum.

KR-ingurinn Pavel Ermolinskij fékk fjögur af sjö atkvæðum þegar spurt var um hvaða leikmaður verði kosinn bestur í úrslitaseríunni en liðsfélagar hans, Martin Hermannsson og Brynjar Þór Björnsson fengu eitt atkvæði hvor sem og Lewis Clinch hjá Grindavík.

Spámenn Fréttablaðsins:

Einar Árni Jóhannsson, Njarðvík:

KR vinnur, 3-2 - Bestur: Brynjar Þór Björnsson, KR.

Teitur Örlygsson, Stjörnunni:

KR vinnur, 3-2 - Bestur: Pavel Ermolinskij, KR.

Benedikt Guðmundsson, Þór Þorl.:

KR vinnur, 3-1 - Bestur: Pavel Ermolinskij, KR.

Ívar Ásgrímsson, Haukum:

KR vinnur, 3-2 - Bestur: Pavel Ermolinskij, KR.

Magnús Þór Gunnarsson, Keflavík:

KR vinnur, 3-1 - Bestur: Martin Hermansson, KR.

Örvar Þór Kristjánsson, ÍR:

Grindavík vinnur, 3-2 - Bestur: Lewis Clinch, Grindavík.

Ingi Þór Steinþórsson, Snæfelli:

KR vinnur, 3-1 - Bestur: Pavel Ermolinskij, KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×