Fótbolti

Kostar Atlético 930 milljónir að láta Courtois spila gegn Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thibaut Courtois er frábær markvörður.
Thibaut Courtois er frábær markvörður. Vísir/Getty
Dregið verður í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á morgun en þar verður spænska liðið Atlético Madríd í pottinum eftir að leggja Barcelona að velli í 8 liða úrslitum.

Atlético þarf að vonast eftir því að dragast ekki á móti Chelsea því markvörður liðsins, Belginn ThibautCourtois, er á láni hjá spænska liðinu frá Chelsea og mun það kosta Atlético fúlgur fjár að láta hann spila.

„Þetta er upphæð sem við getum ekki borgað,“ segir EnriqueCerezeo, forseti félagsins.

Talið er að upphæðin nemi 4,95 milljónum punda eða jafnvirði 930 milljónum íslenskra króna. Það er of dýrt fyrir Atlético og myndi varamarkvörður liðsins líklega spila báða leikina mætast þau í undanúrslitum.

Courtois er á sínu þriðja ári hjá Atlético sem lánsmaður en hann er talinn einn allra efnilegasti markvörður heims, ef ekki einfaldlega einn sá besti. Hann ver mark belgíska landsliðsins og verður í eldlínunni á HM í sumar.

Hann skrifaði undir fimm ára samning við Chelsea árið 2011 þegar hann kom frá Genk í heimalandinu en hefur aldrei spilað leik fyrir liðið. Það heldur honum á ís á meðan PetrCech ver mark Lundúnaliðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×