Körfubolti

Mikill munur á framlagi Clinch í sigur- og tapleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Clinch.
Lewis Clinch. Vísir/Stefán
Lewis Clinch Jr., bandaríski leikmaður Grindavíkur, er mikilvægasti leikmaður Grindvíkinga í undanúrslitaeinvíginu á móti Njarðvík ef marka má tölfræðina úr fyrstu fjórum leikjunum.

Það er nefnilega gríðarlega mikill munur á framalagi Clinch í sigur- og tapleikjum í þessari seríu en framundan er oddaleikur í Grindavík á Skírdag.

Lewis Clinch er með 28,5 stig og 26,5 í framlagi í sigurleikjunum tveimur en þessar tölur detta niður í 11,5 stig og 11,5 framlagsstig að meðaltali í tapleikjunum. Clinch skoraði samtals 57 stig í sigrunum tveimur en stigin voru aðeins samtals 23 í töpunum.

Clinch hefur líka að tapað 6 boltum að meðaltali í tapleikjunum en er bara með 3,0 tapaða bolta að meðaltali í sigrinum. Hann er að gefa fleiri stoðsendingar í tapleikjunum (9,5 á móti 4,5) en Grindavíkurliðið þarf greinlega mikið á stigunum hans að halda.

Clinch þarf því að hitta til að vel fari á fimmtudaginn. Hann hefur hitt úr 11 af 18 þriggja stiga skotum sínum í sigurleikjunum (61 prósent) en aftur á móti klikkað á öllum átta þriggja stiga skotum sínum í tapleikjunum.

Í samanburði við þessar tölur má nefna að það munar ekki miklu á tölum Tracy Smith Jr. , bandaríska leikmannsins í Njarðvíkurliðinu þegar sigur- og tapleikir liðsins í einvíginu eru bornir saman.

Smith er með aðeins hærra framlag í sigrunum (23,5) en töpunum (22,0), hann er líka að skora meira í sigrunum (22,0 stig á móti 19,0) en að frákasta minna (10,5 á móti 12,5).

Lewis Clinch.Vísir/Daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×