Körfubolti

Ívar tekur við kvennaliði Hauka | Þjálfar bæði liðin næsta vetur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ívar er þjálfari þriggja liða núna.
Ívar er þjálfari þriggja liða núna. Vísir/Daníel
Það verður nóg að gera hjá Ívari Ásgrímssyni á næstu misserum en hann var í dag ráðinn þjálfari kvennaliðs Hauka í Dominos-deildinni í körfubolta.

Ívar þjálfar einnig karlaliðið sem gerði frábæra hluti sem nýliði í deildinni í vetur og endaði í fimmta sæti en var síðan sópað í sumarfrí af Njarðvík í 8 liða úrslitum.

Ívar stýrir því bæði karla- og kvennaliðinu næsta vetur en þá var hann einnig ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins í byrjun mánaðarins.

„Það er mikill fengur fyrir körfuknattleiksdeild Hauka að fá þennan reynslumikla þjálfara til að stýra báðum meistaraflokkum félagsins en Ívar hefur gríðarlega mikla reynslu af þjálfun bæði karla- og kvennaliða,“ segir á heimasíðu Hauka.

„Hann þjálfaði í mörg ár kvennalið ÍS og Hauka, auk þess sem hann var landsliðsþjálfari kvenna á árunum 2004-2005.  Hann hefur jafnframt þjálfað karlalið Hauka, Snæfells, ÍA og ÍS.  Haukar vænta mikils af þessum samningi við Ívar og er stefnan sett hátt næstu tvö árin.“

Ívar tekur við kvennaliðinu af BjarnaMagnússyni sem lætur af störfum eftir þrjú ár við stjórnvölinn. Hann kvaddi með bikarmeistaratitli en Haukastúlkur töpuðu svo fyrir Snæfelli í úrslitum Íslandsmótsins.


Tengdar fréttir

Spennandi og skemmtilegt verkefni

Ívar Ásgrímsson, þjálfari karlaliðs Hauka í Dominos-deildinni, var ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×