Enski boltinn

Giggs vill fá að spila meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Vísir/Getty
Ryan Giggs átti mjög flottan leik þegar Manchester United sló gríska liðið Olympiacos út úr Meistaradeildinni með 3-0 sigri á Old Trafford á miðvikudagskvöldið.

Giggs verður 41 árs gamall í nóvember næstkomandi en hann er á sínu 24. tímabili með Manchester United liðinu og vantar nú "bara" 39 leiki til að spila sinn þúsundasta leik fyrir félagið.

Þetta hefur verið erfitt tímabil hjá United og einhverjir hafa lesið í það að Manchester United sé á leið inn í sömu lægð og Liverpool eftir 1990. „Ég skil það svo sem af hverju fólk er að spá þessu enda höfum við ekki spilað nógu vel á þessu tímabili og það hefur vantað stöðugleika í okkar leik," sagði Ryan Giggs. Hann segir samt mikið búa í liðinu.

„Ég veit af reynslu hvað þessir leikmenn geta og margir þeirra hafa verið afskrifaðir. Ég tel að það séu mikil gæði enn í klefanum," sagði Ryan Giggs við Guardian. En vill hann ekki spila meira sjálfur?

„Ég vona að ég fái að spila meira. Ég hef ekki spilað jafnmikið og ég hefði viljað á síðustu mánuðum," sagði Ryan Giggs sem er þó í betri stöðu en margir liðsfélagar hans til að hafa áhrif á það. Giggs er einn aðstoðarmanna knattspyrnustjórans David Moyes.

Ryan Giggs hefur spilað 1177 mínútur á þessu tímabili en hann hefur verið í byrjunarliðinu í fjórtán af þeim tuttugu leikjum sem hann hefur tekið þátt í.

David Moyes hefur látið hann byrja í fimm af átta Meistaradeildarleikjum liðsins og Giggs hefur næstum því spilað jafnmikið í Meistaradeildinni (447 mínútur) og ensku úrvalsdeildinni (484 mínútur) á þessari leiktíð.

David Moyes og Ryan Giggs.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×