Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Haukar 81-77 | Njarðvíkingar komnir í undanúrslit

Ingvi Þór Sæmundsson í Ljónagryfjunni í Njarðvík skrifar
Vísir/Daníel
Njarðvíkingar komust í kvöld í undanúrslit Dominos deildarinnar eftir 81-77 sigur á Haukum í Ljónagryfjunni. Leikurinn var lengst af jafn og spennandi og lítið bar á milli liðanna, en Njarðvíkingar reyndust sterkari á lokasprettinum og tryggðu sér sinn þriðja sigur í jafnmörgum leikjum í einvíginu. Þeir mæta sigurvegaranum úr leikjum Grindavíkur og Þórs í undanúrslitunum.

Strax frá uppkastinu var ljóst að Haukar ætluðu sér ekki að fara í snemmbúið sumarfrí. Þeir voru ákveðnir í öllum sínum aðgerðum, sóknarleikurinn gekk vel og Hafnfirðingar voru að fá framlag frá mörgum leikmönnum. Þeir voru auk þess að hitta ljómandi vel fyrir utan þriggja stiga línuna.

Það hjálpaði þó til að Njarðvíkingar spiluðu ekki vörn í fyrsta leikhluta. Það var allt opið, hvort sem það var undir körfunni eða fyrir utan. Sóknarleikur heimamanna var heldur ekki eins beittur og hann hefur oft verið og Haukar leiddu með 13 stigum að loknum fyrsta leikhluta, 18-31.

Njarðvíkingar þéttu varnarleikinn í öðrum leikhluta og fóru að saxa á forskot Haukanna. Þeir náðu hins vegar ekki að jafna leikinn og gestirnir úr Hafnarfirðinum héldu heimamönnum alltaf nógu langt frá sér. Munurinn í hálfleik var sjö stig, 37-44, en hefði getað verið meiri ef Haukarnir hefðu ekki farið jafn illa með vítaskotin sín og þeir gerðu, en vítanýting þeirra í fyrri hálfleik var aðeins 36%.

Gestirnir voru hins vegar að hitta vel úr þriggja stiga skotum, eða 55%. Terrence Watson var stigahæstur þeirra í hálfleik með 15 stig, auk fimm frákasta, en var, líkt og félagar hans, að hitta illa úr vítaskotunum sínum.

Elvar Már Friðriksson var stigahæstur Njarðvíkinga í hálfleik með tíu stig. Tracy Smith Jr. var hins vegar rólegur, með fimm stig og átta fráköst.

Njarðvíkingar héldu áfram að þjarma að Haukum í þriðja leikhluta, en tókst sem fyrr ekki að jafna leikinn. Haukar voru þremur stigum yfir að loknum þriðja leikhluta og það var ekki fyrr en um miðjan fjórða leikhlutann sem heimamönnum tókst loksins að jafna, en það gerði Maciej Baginski af vítalínunni. Hann skilaði mikilvægu framlagi fyrir Njarðvík í kvöld, sérstaklega undir lokin þegar mest á reyndi; setti niður vítaskotin sín og spilaði góða vörn.

Logi Gunnarsson kom svo Njarðvíkingum yfir með þriggja stiga körfu þegar fimm mínútur lifðu leiks. Spennan á lokamínútum var svo rafmögnuð. Watson jafnaði leikinn í 75-75, en Baginski kom Njarðvíkingum yfir á ný með þristi. Watson minnkaði muninn í 78-77 og allt var á suðupunkti í Ljónagryfjunni.

Þegar hálf mínúta var eftir tók Baginski þriggja stiga skot sem geigaði. Elvar hirti hins vegar sóknarfrákastið og Haukar neyddust til að senda hann á vítalínuna. Elvar hitti úr öðru vítaskotinu, en Haukum mistókst að nýta sér næstu sókn. Sigurður Þór Einarsson hitti þá ekki úr þriggja skoti og Baginski hirti frákastið. Haukarnir brutu strax, en Baginski setti bæði vítin sín niður og jók muninn í fjögur stig, 81-77, þegar sjö sekúndur voru eftir. Logi kórónaði síðan stórleik sinn með því að verja skot frá Emil Barja í lokasókn Hauka og Njarðvíkingar fögnuðu því torsóttum, en afar sætum, fjögurra stiga sigri.

Logi átti frábæran leik í liði Njarðvíkur og reynsla hans vóg þungt á metunum undir lokin. Hann skoraði 20 stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Elvar kom næstur með 19 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar. Líkt og fyrri tveimur leikjunum í einvíginu var hann ekki að hitta vel utan af velli, en hann var hins vegar duglegur að sækja villur á leikmenn Hauka og koma sér á vítalínuna. Ágúst Orrason átti einnig fínan leik og þá hefur framlag Baginskis verið nefnt. Smith hafði hins vegar hægt um sig í stigaskori (9), en tók 13 fráköst.

Watson stóð upp úr liði Hauka; spilaði hverja einustu mínútu, skoraði 33 stig, tók ellefu fráköst, varði þrjú skot og spilaði góða vörn á Smith. Haukar hefðu þó þurft að fá framlag frá fleiri leikmönnum í sókninni í seinni hálfleik. Emil átti ágætis leik, með 13 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar.

Þrátt fyrir að hafa tapað einvíginu 3-0 geta Haukar gengið stoltir frá borði. Leikirnir þrír töpuðust aðeins með samtals tólf stigum og það þurfti ekki mikið til að sigrarnir hefðu hafnað þeirra megin. Liðið er ungt og svo til reynslulaust í úrslitakeppninni og það sagði líklega til sín. Reynsla Njarðvíkinga af úrslitakeppni er meiri og það hafði eflaust mikið að segja um útkomu þessara jöfnu leikja.

Logi Gunnarsson:Frábær endir á góðri seríu hjá okkur

Logi Gunnarsson var að vonum ánægður eftir sigur Njarðvíkinga á Haukum í kvöld. Húnarnir unnu einvígið 3-0, þótt allir sigrarnir hefðu verið mjög tæpir.

"Það sýnir þennan svakalega styrk sem býr í okkar liði, að vinna þrjá leiki og alla svona jafna, því það er meira en að segja það að vinna jafna leiki - að vera undir og koma til baka."

"Haukarnir eiga mikið hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu, bæði í vörn og sókn, og við þurftum að hafa mikið fyrir öllum þremur sigrunum."

"Við undirstrikuðum að við værum komnir í úrslitakeppnina til að gera stóra hluti og það voru ekki margir sem spáðu Njarðvík 3-0 sigri, enda lið númer fjögur og fimm að mætast. Þetta var frábær endir á góðri seríu hjá okkur."

Njarðvíkingar voru í miklum vandræðum í fyrsta leikhluta, sérstaklega varnarlega. Þeir voru 13 stigum undir að honum loknum og voru að elta Haukana nánast allan leikinn.

"Þetta var það sama og í öllum hinum leikjunum. Þeir eru búnir að byrja mikið betur en við, en við komum alltaf til baka. Setjum í lás í vörninni og fáum góðar og stórar körfur. Við erum að spila af miklum eldmóði og krafti og ég held að það sé ástæðan fyrir því að við komum til baka. Við gefumst aldrei upp og eigum alltaf rosalega kröftugar endurkomur."

"Allir þessir ungu strákar eru að spila í úrslitakeppninni þriðja árið í röð og ég er búinn að fara oft í gegnum langar seríur; maður veit um hvað þetta snýst og það hjálpar mikið. Haukarnir voru að koma í fyrsta skipti í úrslitakeppnina, flestir, og ég held að það hafi skipt einhverjum sköpum."

Logi bar einnig lof á liðsfélaga sinn, Maciej Baginski, sem átti mjög góðan leik, sérstaklega í lokaleikhlutanum.

"Við fengum líka stórt framlag frá honum undir lok leiksins á Ásvöllum. Hann var að setja rosa stórar körfur og mjög sterkt hjá honum að taka stór varnarfráköst og skila góðum stigum."



Ívar Ásgrímsson: Vantaði þetta litla sem skilur á milli

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var eðlilega svekktur að leik loknum, en hans menn eru komnir í sumarfrí.

"Við erum búnir að tapa öllum leikjunum eins, á síðustu mínútunum. Mér fannst við vera með þennan leik, eins og fyrsta leikinn, í okkar höndum. Okkar vantaði kannski þessi lykilskot til að detta."

Ívar var ekki ánægður með dómgæsluna í fyrstu tveimur leikjunum, en kvaðst ánægður með frammistöðu dómaranna í kvöld.

"Mér fannst dómgæslan í fyrsta skipti mjög góð, allan leikinn. Ég held þeir eigi það skilið eftir þennan leik að fá hrós, þó ég hafi ekki verið sáttur að fá ekki villu dæmda þegar brotið var á Terrence (Watson) undir lokin. Þeir voru þrír að hamra á honum og það var okkur dýrt, en heilt yfir, þá dæmdu þeir þennan leik alveg gríðarlega vel."

Þrátt fyrir að tapa einvíginu 3-0, töpuðu Haukarnir leikjunum þremur samtals með aðeins tólf stigum.

"Það vantaði reynsluna," sagði Ívar. "Ég held að það sé það sem skiptir máli í svona leikjum, því þetta eru svo jafnir leikir. Við vorum ekki alveg nógu skynsamir undir lokin, eins og við erum búnir að vera í mjög mörgum leikjum, en þessir strákar eru að keppa í sinni fyrstu úrslitakeppni. Þeir eru nýgræðingar í úrslitakeppni og ég er gríðarlega stoltur af liðinu."

"Við spiluðum vel en það vantaði þetta litla sem skilur á milli.

Njarðvík-Haukar 81-77 (18-31, 19-13, 22-18, 22-15)

Njarðvík: Logi Gunnarsson 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Elvar Már Friðriksson 19/8 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Maciej Stanislav Baginski 13, Ágúst Orrason 11, Tracy Smith Jr. 9/13 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 5/4 fráköst/4 varin skot, Hjörtur Hrafn Einarsson 4, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Magnús Már Traustason 0, Brynjar Þór Guðnason 0.

Haukar: Terrence Watson 33/11 fráköst/3 varin skot, Emil Barja 13/5 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Þór Einarsson 13, Haukur Óskarsson 6/4 fráköst, Helgi Björn Einarsson 6, Kristinn Marinósson 4/5 fráköst/5 stoðsendingar, Svavar Páll Pálsson 2/4 fráköst, Kári Jónsson 0, Steinar Aronsson 0, Davíð Páll Hermannsson 0, Alex Óli Ívarsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0.

Njarðvík - Haukar - Leikur þrjú í Ljónagryfjunni - Textalýsing:

Leik lokið | 81-77 | Þetta er búið. Fjögurra stiga sigur Njarðvíkinga sem eru komnir í undanúrslitin. Frábær leikur og spennandi sem við fengum að sjá í Ljónagryfjunni í kvöld.

40. mín | 81-77| Ólafur Helgi á vítalínunni. Logi varði skot frá Emil í sókninni hjá Haukum.

40. mín | 81-77 | Baginski setur tvö vítaskot niður og fer langleiðina með þetta. Ívar tekur leikhlé. Þetta er tveggja sókna leikur. Sjö sekúndur lifa leiks.

40. mín | 79-77 | Leikhlé. Elvar hitti úr öðru vítaskotinu. Haukar eiga boltann þegar 18 sekúndur eru eftir. Boltinn fer væntanlega inn á Watson.

40. mín | 78-77| Baginski hittir ekki úr þriggja stiga skoti, en Elvar tók sitt áttunda frákast í leiknum. Haukar senda hann á línuna.

39. mín | 78-77 | Leikhlé. Eins stigs munur heimamönnum í vil. Watson er búinn að fara á kostum í þessum leik (33-11). Ívar myndi þó eflaust þiggja framlag frá fleirum í sókninni.

39. mín | 78-75 | Watson jafnar leikinn á ný en Baginski setur svo niður þrist og kemur Njarðvík aftur yfir. Sá er búinn að reynast drjúgur hér í seinni hálfleik.

38. mín | 75-73 | Watson jafnar leikinn, en Smith kemur Njarðvíkingum yfir í næstu sókn. Haukar þurfa sárlega framlag frá fleirum en Watson í sókninni.

36. mín | 70-67 | Logi kemur heimamönnum yfir í fyrsta skipti síðan ég veit ekki hvenær. Sjáum hvernig Haukar svara þessu. Þeir eru aðeins búnir að skora fimm stig í leikhlutanum.

35. mín | 67-67| Baginski jafnar leikinn af vítalínunni. Loksins, loksins tekst Njarðvíkingum að jafna leikinn. Leikhlé. Þjálfararnir fara yfir lokasprettinn með sínum mönnum.

34. mín| 65-67| Hjörtur Hrafn Einarsson með flotta körfu og minnkar muninn í tvö stig. Sigurður og Smith eru þeir einu sem eru í villuvandræðum hjá liðunum. Báðir með fjórar.

32. mín | 62-67 | Elvar setur niður þrist en Helgi Björn Einarsson svaraði með körfu góðri og setti svo vítaskotið niður. Munurinn aftur fimm stig.

31. mín | 59-64 | Watson eykur muninn í fimm stig. Hann er búinn að hafa yfirhöndina í baráttu Kananna í kvöld, allavega hingað til.

Þriðja leikhluta lokið | 59-62 | Watson ver skot frá Elvari þegar leiktíminn var að renna út. Það var þó ansi sterk villulykt af þessu. Njarðvíkingar þjarma að Haukunum, en hafa ekki enn náð að jafna leikinn né komast yfir. Watson er kominn með 21 stig og átta fráköst hjá Haukum og Sigurður og Emil eru báðir með 13 stig. Logi og Elvar eru stigahæstir Njarðvíkinga með 14 stig hvor. Smith skoraði aðeins tvö stig í leikhlutanum.

30. mín | 59-60 | Logi minnkar muninn í eitt stig af vítalínunni.

27. mín | 49-51 | Elvar setur niður stökkskot og minnkar muninn í tvö, og aðeins tvö, stig. Ívar tekur leikhlé.

26. mín | 47-51 | Ruðningur dæmdur á Smith við mikinn fögnuð stuðningsmanna Hauka. Elvar og Smith eru aðeins komnir með þrjár körfur samtals.

23. mín | 42-46 | Ágúst setur sinn þriðja þrist niður áður en Watson bætir tveimur stigum við fyrir gestina. Hann er kominn með 17 stig og sex fráköst.

Seinni hálfleikur hafinn | 39-46 | Watson opnar seinni hálfleikinn með körfu, en Smith svarar með því að setja tvö vítaskot niður.

Fyrri hálfleik lokið | 37-44 | Watson skorar síðustu stig hálfleiksins. Gestirnir leiða með sjö stigum. Vörn Njarðvíkur batnaði til mikilla muna í öðrum leikhluta og héldu Haukunum í 13 stigum. Haukar hafa þó verið sjálfum sér verstir, því þeir eru aðeins með 36% vítanýtingu. Þeir eru hins vegar að hitta vel úr þriggja stiga skotum, eða 55%, gegn 21% hjá Njarðvík. Watson er stigahæstur Hauka með 15 stig, auk fimm frákasta. Emil er kominn með níu stig og Sigurður Þór átta. Elvar er stigahæstur heimamanna með 10 stig. Smith hefur verið með rólegasta móti, aðeins skorað fimm stig og tekið átta fráköst.

19. mín | 37-40 | Kristinn Marinósson skoraði sína aðra körfu fyrir Hauka, en Logi svaraði með stökkskoti. Hann er kominn með níu stig.

18. mín | 33-36 | Leikhlé. Ágúst minnkaði muninn í tvö stig með góðum þristi, Emil svaraði með öðrum þristi og Logi minnkaði svo muninn í þrjú stig. Vítanýting Haukanna er ekki boðleg; 29%.

15. mín | 28-33 | Logi með frábæra þriggja stiga körfu í þann mund sem skotklukkan gellur. Smith bætir svo tveimur stigum við. Heimamenn farnir að þjarma að gestunum.

14. mín | 24-33| Leikhlé. Ólafur Helgi Jónsson skoraði áðan eftir frábæra "outlet" sendingu frá Smith. Það er dágóður munur á þriggja stiga nýtingu liðanna; 71% hjá Haukum, en 20% hjá heimamönnum.

13. mín | 22-33 | Baginski tekur sóknarfrákast eftir eigin skot og skorar. Elvar er kominn með átta stig, þar af fimm af vítalínunni.

Fyrsta leikhluta lokið | 18-30| Tólf stiga munur. Haukar hafa engan áhuga á að fara í sumarfríí kvöld. Hafnfirðingar eru að spila vel á báðum endum vallarins og eru að fá framlag frá mörgum í sókninni. Watson er stigahæstur Haukanna með níu stig, en Sigurður kemur næstur með átta. Njarðvíkingar eru ekki að spila vörn og þurfa að byrja á því ef ekki á illa að fara.

9. mín | 16-24 | Átta stiga munur. Sigurður setti áðan sinn annan þrist niður fyrir Hauka.

8. mín |12-20 | Haukar mæta mjög ákveðnir til leiks. Körfur frá Sigurði, Emil og Watson koma þeim átta stigum yfir. Einar Árni tekur leikhlé.

7. mín | 12-13 | Elvar með ótrúlega þriggja stiga körfu, af spjaldinu og niður. Svavar Páll Pálsson og Haukur Óskarsson með körfur fyrir Hauka. Smith er einnig kominn á blað hjá Njarðvík.

5. mín | 6-8 | Sex stig í röð frá Haukum. Watson skoraði með stökkskoti, Sigurður Þór Einarsson setti þrist og Emil Barja skoraði sjötta stigið úr víti.

2. mín | 6-2 | Logi Gunnarsson skorar eftir hraðaupphlaup og bætti við stigi af vítalínunni. Watson skoraði fyrstu stig leiksins, en Ágúst Orrason svaraði með þristi.

Fyrsti leikhluti hafinn | 0-0 | Þetta er komið af stað. Vonandi bjóða liðin upp á spennandi leik.

Fyrir leik: Þetta fer að hefjast. Stúkan er þétt setin hér í Ljónagryfjunni.

Fyrir leik: Egill Jónasson leikur ekki með Njarðvíkingum í kvöld. Annars eru liðin óbreytt frá síðustu leikjum.

Fyrir leik: Dómarar í kvöld eru þeir Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Einar Þór Skarphéðinsson.

Fyrir leik: Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, sagði í samtali við Vísi eftir síðasta leik að hans menn þyrftu að vera skynsamari í sínum leik. Hann lýsti einnig yfir óánægju sinni með dómgæsluna: "Þeir brutu á honum (Terrence Watson) allan leikinn en hann fékk bara fimm villur dæmdar á sig," sagði Ívar. "Þannig er þetta leik eftir leik og það virðist sem að við njótum engrar virðingar hjá dómurum. Maður skilur þetta bara ekki."

Fyrir leik: Tölfræði liðanna í þessum leikjum er mjög áþekk. Haukar eru með 25 tapaða bolta í einvíginu, gegn 24 hjá Njarðvík. Njarðvíkingar hafa haft betur í frákastabaráttunni í báðum leikjunum, samtals 83-76. Tveggja stiga nýting Hauka er betri, 48% gegn 45% hjá Njarðvík og Haukar eru einnig með örlítið betri nýtingu úr þriggja stiga skotum, 35% gegn 34%. Njarðvíkingar eru hins vegar með mun betri vítanýtingu, 79% gegn 64% hjá Haukum.

Fyrir leik: Haukur Óskarsson var drjúgur í fyrri leiknum þar sem hann skoraði 21 stig fyrir Hafnfirðinga. Emil Barja var rólegur í leiknum í Njarðvík (6-5-5), en átti góðan leik (20/5/6) í Schenkerhöllinni þrátt fyrir að hafa lent í villuvandræðum snemma leiks.

Fyrir leik: Terrence Watson hefur verið atkvæðamestur Haukamanna í einvíginu. Í fyrri leiknum skoraði hann 21 stig, tók 18 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og var með 35 í framlag. Í seinni leiknum skilaði Smith 20 stigum, 18 fráköstum, sex stoðsendingum, fimm vörðum skotum og 38 framlagsstigum. Skotnýting hans í einvíginu er góð, eða 59%.

Fyrir leik: Elvar Már Friðriksson og Logi Gunnarsson hafa einnig skilað sínu í leikjunum tveimur í einvíginu, þótt þeir hafi ekki verið að hitta vel. Elvar var með 16-3-9 línu í fyrri leiknum og 15-2-7 í þeim seinni, en skotnýting hans í þessum tveimur leikjum er aðeins 28%. Hann hefur þó verið duglegur að koma sér á vítalínuna og nýtt vítaskotin sín vel. Logi skoraði 16 stig í fyrri leiknum og í þeim seinni skilaði hann 12 stigum, sjö fráköstum og sex stoðsendingum. Skotnýting hans í einvíginu er 30%.

Fyrir leik: Tracy Smith Jr. hefur átt rosalega leiki fyrir Njarðvík í einvíginu. Í fyrri leiknum í Ljónagryfjunni spilaði hann hverja einustu mínútu, skoraði 33 stig, tók 18 fráköst og var með 41 framlagsstig, flest allra á vellinum. Þá var skotnýting hans afbragðs góð, eða 62%. Í seinni leiknum í Schenkerhöllinni skoraði Smith 25 stig, tók 22 fráköst, varði fimm skot og var með 42 í framlag.

Fyrir leik: Báðir leikirnir í einvíginu til þessa hafa verið jafnir og spennandi og lokastaðan í þeim hefur, merkilegt nokk, verið sú sama: 88-84, Njarðvík í vil. Njarðvíkingar geta því sent Haukanna í sumarfrí með sigri í kvöld.

Fyrir leik: Njarðvíkingar eiga möguleika á því að komast í undanúrslitin í fyrsta sinn í fjögur ár eða síðan að þeir slógu Stjörnuna út úr átta liða úrslitunum vorið 2010.

Fyrir leik: Haukarnir hafa tapað fjórtán útileikjum í röð í úrslitakeppni karla og þurfa að vinna sinn fyrsta útisigur síðan 1996 ætli þeir sér ekki í sumafrí í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×