Fótbolti

Björn Bergmann: Betri í dag en þegar ég fór frá Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Vísir/Getty
Björn Bergmann Sigurðarson byrjaði vel hjá Molde í gærkvöldi þegar hann skoraði annað marka liðsins í 2-0 sigri á Vålerenga í fyrsta leik norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á þessu tímabili.

Björn Bergmann er kominn aftur í norsku deildina eftir að hafa ekki fundið sig hjá Wolves í enska boltanum. Hann skoraði 7 mörk í 13 leikjum á síðasta tímabili sínu með Lilleström 2012.

„Það var góð reynsla fyrir mig að fara til Englands og ég kem til baka sem betri leikmaður. Ég var ekki með mikið sjálfstraust undir lokin en ég bætti líkamsstyrkinn," sagði Björn Bergmann við VG. Björn Bergmann skoraði 7 mörk í 60 leikjum með Wolves.

Það er hægt að sjá markið hans í gær með því að smella hér en hann var einnig nærri því að skora sitt annað mark sem og að leggja upp mark fyrir Mohamed Elyounoussi sem átti skot í stöng eftir undirbúnings Íslendingsins.

„Ég kom til baka til Noregs til að vinna titilinn með Molde. Ég veit ekki hvort ég nái markakóngstitlinum því aðalatriði er að vinna leiki og ná í stig. En hver vill ekki verða markakóngur," sagði Björn Bergmann.

Björn Bergmann er ekki vanur að gefa íslenskum blaðamönnum viðtöl en með því að smella hér má sjá hann í viðtali við sjónvarpsmann TV2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×