Fótbolti

Guardiola ósáttur eftir 6-1 sigur

Guardiola á bekknum um helgina.
Guardiola á bekknum um helgina. vísir/getty
Bayern München er á mikilli siglingu undir stjórn Spánverjans Pep Guardiola. 6-1 sigur liðsins á Wolfsburg var þó ekki nóg til þess að gleðja Guardiola.

Honum fannst Wolfsburg fá að vera allt of mikið með boltann fyrsta klukkutíma leiksins og segir að liðið megi ekki gera sömu mistök gegn Arsenal í Meistaradeildinni.

"Við skoruðum fjögur eða fimm mörk á einhverjum 20 mínútum en þeir voru samt alltaf hættulegir í skyndisóknum. Við vorum ekki með sömu yfirburði og við höfum haft í síðustu leikjum," sagði Spánverjinn en hans lið lenti undir í leiknum.

Bayern er með tveggja marka forskot á Arsenal fyrir síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

"Ég þekki Arsenal mjög vel og liðið er mjög gott í að halda boltanum. Ef við höldum boltanum þá förum við áfram. Ef þeir halda boltanum þá fara þeir áfram."

Bayern er búið að spila 39 leiki í öllum keppnum í vetur og vinna 34 af þeim. Aðeins tveir leikir hafa tapast.

Liðið er búið að vinna 16 leiki í röð í þýsku deildinni og hefur skoraði 26 mörk í síðustu sex leikjum. Bayern er með 20 stiga forskot í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×