Fótbolti

Höness viðurkenndi stórfellt skattalagabrot

Höness gengur í réttarsalinn í gær.
Höness gengur í réttarsalinn í gær. vísir/getty
Forseti þýska knattspynuveldisins, Uli Höness, gæti verið á leið í fangelsi en hann játaði í gær að hafa svikið undan skatti.

"Ég sé mikið eftir því að hafa hagað mér svona. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að loka þessum leiðinlega kafla í mínu lífi," sagði Höness í vitnastúkunni í gær.

Höness var sakaður um að hafa svikist um að greiða skatta upp á 550 milljónir króna. Forsetinn fór alla leið í játningu sinni í gær og viðurkenndi mun stærra brot en hann var sakaður um. Hann segist hafa svikið skattmann um 2,8 milljarða króna. Hann geymdi peningana á leynilegum reikningi í Sviss.

Hann hefur þegar sýnt lit með því að greiða hluta af þessum peningum til baka og vonast því eftir vægari dómi en ella.

Hámarksdómur af þessu tagi er tíu ára fangelsi. Dómur í málinu verður væntanlega kveðinn upp á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×