Fótbolti

Mascherano: Ekki drepa okkur strax - það er bara mars!

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Javier Mascherano segir hungur í liði Barcelona.
Javier Mascherano segir hungur í liði Barcelona. Vísir/Getty
Javier Mascherano, leikmaður Spánarmeistara Barcelona, segir engin vandamál vera innan herbúða liðsins og þar séu allir einbeittir á að vinna titla á þessu tímabili eins og alltaf.

Barcelona tapaði mjög óvænt fyrir Real Valladolid í spænsku deildinni um helgina og er nú fjórum stigum á eftir erkifjendunum í Real Madrid í baráttunni um spænska meistaratitilinn.

Mascherano er aftur á móti sannfærður um að hungrið sé enn til staðar enda er liðið ekki úr leik í baráttunni um titilinn auk þess sem það er komið í úrslit spænska Konungsbikars og er í forystu gegn Man. City fyrir seinni leikinn í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

„Við erum 2-0 yfir. Við erum ekkert svo slæmir. Þetta er gott tækifæri til að reyna komast í átta liða úrslitin,“ sagði Mascherano við blaðamenn í gær.

„Markmiðið er alltaf að vinna titla en okkur ber skylda á þessu stigi tímabilsins að vera í baráttunni um þá alla. Ef allt gengur upp þá eigum við 18 leiki eftir á tímabilinu held ég.“

„Við skulum bara sjá hvernig þetta allt fer á endanum. Bíðið með að drepa okkur þar til við liggjum á dánarbeðinu. Ekki drepa okkur strax, það er nú bara mars!“ sagði Javier Mascherano.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×