Körfubolti

Njarðvíkurkonur fallnar úr Dominos-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir og félagar í Grindavík gulltryggðu endanlega sæti sitt í deildinni í kvöld.
Pálína Gunnlaugsdóttir og félagar í Grindavík gulltryggðu endanlega sæti sitt í deildinni í kvöld. Vísir/Daníel
Njarðvík féll í kvöld úr Dominos-deild kvenna í körfubolta eftir 26 stiga tap á heimavelli á móti nágrönnum sínum úr Keflavík, 58-84. Sigur hefði heldur ekki dugað liðinu því Grindavík vann Hamar í Hveragerði á sama tíma.

Njarðvík er með 12 stig eftir 26 leiki eða sex stigum minna en Grindavík þegar aðeins fjögur stig eru eftir í pottinum. Grindavík hafði auk þess betri stöðu í innbyrðisleikjum liðanna og tryggði sér því áframhaldandi sæti í efstu deild með sigrinum á Hamar í Hveragerði.

Kvennalið Njarðvíkur er þar með fallið úr efstu deild aðeins tveimur árum eftir að liðið varð Íslands- og bikarmeistari vorið 2012.

Grindavíkurliðið hefur unnið tvo síðustu leiki sína en Lewis Clinch Jr. og Hamid Dicko tóku við liðinu á dögunum af Jóni Halldóri Eðvaldssyni. Crystal Smith skoraði 32 stig í 80-76 sigri á Hamar og Pálína Gunnlaugsdóttir var með 22 stig. Chelsie Alexa Schweers skoraði 30 stig fyrir Hamar.

Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 20 stig fyrir Keflavík sem tryggði sér þriðja sætið með þessum sigri. Diamber Johnson var með 18 stig og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 17 stig. Nikitta Gartrell skoraði 24 stig fyrir Njarðvík en Salbjörg Sævarsdóttir var stigahæst íslensku stelpnanna með 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×