Erlent

Rússar segja hermenn sína ekki á förum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Rússar hafa heitið því að hermenn þeirra verði um kyrrt á Krímskaga uns ástand svæðisins „kemst í samt horf.“

Sergei Lavrov, utanríkissráðherra Rússlands segir það vera lið í því að vernda mannréttindi rússneskumælandi Úkraínumanna fyrir árásum öfgahópa.

Lavrov mun funda með Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu Þjóðana í Genf í dag. Rússneski ráðherrann hefur fordæmt hótanir vesturlanda sem hafa látið í veðri vaka að þau muni beita sér fyrir viðskiptaþvingunum og bönnum.

Þó engum skotum hafi verið hleypt af er Krímskaginn nú undir stjórn Rússlands.



Tvær herstöðvar á Krímskaga eru nú umkringdar rússneskum hermönnum, rétt eins og flugvellir og önnur hernaðarlega mikilvæg svæði á skaganum.



Stöðugt fjölgar í hersveitum Rússa á svæðinu og þúsundir sérþjálfaðra hermanna eru nú margfalt fleiri en heimavarnarliðið sem fyrir var á Krímskaga.

Rússar hafa sent tíu vígbúnar þyrlur og að minnsta kosti átta herflutningavélar til Úkraínu á síðastliðnum sólarhring. 



Úkraínskir landamæraverðir hafa tilkynnt yfirvöldum að fjöldi brynvarðra vagna sé tekinn að safnast saman við landamæri ríkjanna en Rússar hafa náð stjórn á öllum sjóflutningnum milli Krímskaga og Rússlands.

Karlmenn vítt og breitt um Úkraínu fengu herkvaðningu um helgina og hefjast æfingar varaliðs úkraínska hersins í dag og standa yfir næstu 10 daga.


Tengdar fréttir

Obama varar Rússa við hernaðaraðgerðum í Úkraínu

Barack Obama bandaríkjaforseti flutti ávarp í Hvíta húsinu í gær þar sem hann varaði Pútín við frekari hernaðaríhlutun í Úkraínu, og sagðist óttast að afskipti rússneskra stjórnvalda ógni stöðugleika á svæðinu.

Rússneskir hermenn sitja um herstöð

Forsætisráðherra Úkraínu hefur biðlað til Rússa að afturkalla herlið sitt frá svæðinu sem nú er sagt vera á "barmi hörmunga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×