Erlent

Rússar gefa Úkraínu frest til klukkan 03:00 í nótt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Rússar hafa gefið úkraínskum hermönnum á Krímskaga frest til klukkan 03:00 í nótt (GMT) til að gefast upp ellegar muni Svartahafsfloti Rússlands ráðast á Krímskaga.

Þetta kemur fram í máli varnarmálaráðuneytis Úkraínu og Sky fréttastofan greindi frá rétt í þessu.

„Ef þeir hafa ekki gefist upp klukkan 05:00 (á staðartíma) á morgun verður ráðist á hermenn og landssvæði úkraínska hersins á Krímskaga,“ er haft eftir talsmanni ráðuneytisins.



Forsætisráðherra Rússlands, Dmitry Medvedev ítrekaði fyrri ummæli Pútíns í samtali sínu við Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna, í dag.

Medvedev sagði að hann teldi nauðsynlegt „að standa vörð um hagsmuni úkraínskra ríkisborgara, þar með talið íbúa Krímskagans, og Rússa sem búsettir eru í Úkraínu.“



Forsætisráðherrann bætti við að hann hygðist flýta byggingu nýrrar brúar milli Krímskaga og Rússlands sem myndi bæta mikið samgöngur til og frá svæðinu.

Þó engum skotum hafi verið hleypt af er Krímskaginn nú þegar undir stjórn Rússlands.



Stöðugt fjölgar í hersveitum Rússa á svæðinu og þúsundir sérþjálfaðra hermanna eru nú margfalt fleiri en heimavarnarliðið sem fyrir var á Krímskaga.

Úkraínskir landamæraverðir hafa tilkynnt yfirvöldum að fjöldi brynvarðra vagna sé tekinn að safnast saman við landamæri ríkjanna en Rússar hafa náð stjórn á öllum sjóflutningnum milli Krímskaga og Rússlands.

Ekki er útilokað að átökin breiðist til  annarra staða í Úkraínu, einkum austurhluta landsins þar sem rússneskumælandi íbúar eru fjölmennastir.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur sagt að utanríkisráðherrar hinna ýmsu ríkja, G8 ríkjanna þar með talið, íhugi að beita Rússa viðskiptaþvingunum ef Rússar grípa til hernaðar. Að ríkin muni beita sér fyrir því að einangra Rússa í alþjóðaviðskiptum og að jafnvel gæti komið til eignafrystinga.


Tengdar fréttir

Gunnar Bragi fundar með sendiherra Rússa

Utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld leggja þunga áherslu á að Rússar láti umsvifalaust af öllum hernaðaraðgerðum í Úkraínu og fari að alþjóðalögum.

Rússneskir hermenn sitja um herstöð

Forsætisráðherra Úkraínu hefur biðlað til Rússa að afturkalla herlið sitt frá svæðinu sem nú er sagt vera á "barmi hörmunga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×