Körfubolti

Valskonur geta tryggt sér sæti í úrslitakeppninni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Sverrisdóttir mætir sínum gömlu félögum í Hamar í kvöld.
Guðbjörg Sverrisdóttir mætir sínum gömlu félögum í Hamar í kvöld. Vísir/Valli
Þrjú af fjórum liðum úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfubolta hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni í ár en í kvöld gæti fjórða liðið bæst í hópinn.

Valur tekur á móti Hamar í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda í kvöld og Valskonur tryggja sér fjórða sætið og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina með sigri. Vinni Hamarskonur hinsvegar leikinn hafa þær allt í sínum höndum í lokaumferðinni.

Valur er með tveimur stigum meira en Hamar þegar tveir leikir eru eftir. Það setur hinsvegar mikla spennu í leikinn að Hamarsliðið er búið að vinna þrjá fyrstu leiki liðanna í vetur og er því öruggt með betri árangur í innbyrðisleikjum verði liðin jöfn.

Hamar kemst því upp fyrir Val á innbyrðisleikjum með sigri í leiknum í kvöld og nægir þá sigur á heimavelli á móti Haukum til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Valsliðið mætir Njarðvík í lokaumferðinni.

Það er því allt undir í leik kvöldsins og hvorugt liðanna má við því að tapa leiknum ætli það sér að vera með í úrslitakeppninni í ár.

Heil umferð fer annars fram í kvöld en þá mætast einnig Keflavík-KR í TM höllinni í Keflavík, Grindavík-Njarðvík í Grindavík og Haukar-Snæfell í Schenker-höllinni á Ásvöllum. Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×