Körfubolti

Þrír Grindvíkingar hafa verið með í öllum þremur töpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson getur unnið sinn fyrsta bikarmeistaratitil í dag.
Ólafur Ólafsson getur unnið sinn fyrsta bikarmeistaratitil í dag. Vísir/Daníel
Grindavíkurliðið hefur tapað þremur bikarúrslitaleikjum í Laugardalshöllinni á undanförnum fjórum árum og þrír leikmenn liðsins í dag hafa verið með í öllum þessum tapleikjum. Grindavík mætir ÍR í úrslitaleik Poweradebikars karla í körfubolta klukkan 16.00 í dag.

Þeir þrír Grindvíkingar sem hafa verið með í öllum þremur töpunum eru bræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafsson og svo Ómar Sævarsson. Ólafur sker sig síðan úr hópnum því hann hefur ólíkt hinum tveimur aldrei orðið bikarmeistari.

Þorleifur vann bikarinn með Grindavík 2006 og Ómar varð bikarmeistari með ÍR 2007. Grindavík hafði aldrei tapað í bikarúrslitum þegar liðið mætti í Höllina 20. febrúar 2010 en þá tapaði liðið á móti Snæfelli og hefur síðan einnig tapað á móti KR (2011) og Stjörnunni (2013).

Þeir bræður Þorleifur og Ólafur hittu aðeins saman úr 4 af 19 skotum í úrslitaleiknum á móti Stjörnunni í fyrra og skoruðu aðeins 9 stig saman. Það er ekki tölfræði sem menn eiga að venjast frá þeim bræðrum og eitthvað sem þeir láta örugglega ekki koma aftur fyrir í úrslitaleiknum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×