Körfubolti

Fyrsti leikurinn á milli eitt og tvö í sjö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir sést hér búa sig undir að skora mikilvægustu körfuna í bikaúrslitaleik kvenna árið 2007.
Pálína Gunnlaugsdóttir sést hér búa sig undir að skora mikilvægustu körfuna í bikaúrslitaleik kvenna árið 2007. Vísir/Vilhelm
Snæfell og Haukar mætast í dag í úrslitaleik Poweradebikars kvenna í körfubolta en leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni og hefst klukkan 13.30.

Bikarúrslitalið Snæfells og Hauka eru í tveimur efstu sætum Dominos-deildar kvenna og það hefur aðeins gert einu sinni á síðustu þrettán árum að tvö efstu liðin í deildinni mætist í bikarúrslitaleiknum.

„Ég held að þetta verði hörkuleikur, einn flottasti bikarkvennaleikur sögunnar," sagði Pálína Gunnlaugsdóttir þegar íþróttadeild Vísis og Fréttablaðsins fékk hana til að spá fyrir um úrslit leiksins.

Pálína spilaði einmitt lykilhlutverk þegar Haukar unnu Keflavík 78-77 í síðasta uppgjöri milli liða eitt og tvö í deildinni í bikarúrslitum en það er einn allra flottasti bikarúrslitaleikurinn.

Pálína stal þá boltanum á úrslitastundu þegar staðan var jöfn, fór upp allan völl, skoraði og fékk víti að auki sem hún nýtti. Keflavík náði aldrei að jafna leikinn eftir það og Haukakonur tryggðu sér titilinn.  

Þetta er í sjötta sinn frá 1993 sem efstu tvö liðin þá stundina mætast í bikarúrslitunum og liðið í öðru sæti hefur aðeins unnið einn leik af fimm. KR vann þá Keflavík í úrslitaleiknum 2001 og Haukaliðið mun gera allt í dag til að leik það eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×