Erlent

Tímósjenkó laus og Janúkovítsj sviptur völdum

Elimar Hauksson skrifar
Tímósjenkó var dæmd í  sjö ára fangelsi fyrir misnotkun valds í tengslum við gassamning sem hún gerði við rússnesk stjórnvöld árið 2009.
Tímósjenkó var dæmd í sjö ára fangelsi fyrir misnotkun valds í tengslum við gassamning sem hún gerði við rússnesk stjórnvöld árið 2009. Mynd/afp
Júlía Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, hefur nú verið látin laus úr haldi eftir að hafa setið í fangelsi í rúmlega tvö ár.

Úkraínska þingið samþykkti þingsályktunartillögu þar sem fangelsisdómur sem Tímósjenkó hlaut árið 2011 var snúið við. Hún var í október 2011 dæmd til sjö ára fangelsisvistar fyrir misnotkun valds í tengslum við gassamning sem hún gerði við rússnesk stjórnvöld árið 2009.

Tímósjenkó hefur alla tíð haldið því fram að sakfellingin hafi verið byggð á lygavef en Evrópusambandið hafði krafist þess að hún yrði látin laus sem eitt af skilyrðum viðskiptasamninga ESB og Úkraínu, sem Janúkovítsj hafnaði á seinasta ári og varð kveikjan að því ófremdarástandi sem ríkir nú í landinu.

Úkraínska þingið samþykkti í dag einnig að svipta forseta landsins, Viktor Janúkóvitsj, völdum og boða til kosninga í lok maí.  Forsetinn er talinn hafa flúið Kænugarð seint í gærkvöldi en aðstoðarmaður hans lét hafa það eftir sér að Janúkovítsj væri nú í borginni Kharkiv í austurhluta Úkraínu þar sem hann nýtur enn nokkurs stuðnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×