Erlent

Þjóðstjórn mynduð í Úkraínu

Elimar Hauksson skrifar
Úkraínska löggjafarþinginu hefur verið falið að mynda þóðstjórn í landinu og forseta þingsins, Oleksander Turchinov, falið tímabundið forsetavald, þar til gengið verður til kosninga í lok maí á þessu ári.

Löggjafarþing Úkraínu hefur samþykkt að Turchinov fái tímabundið forsetavald en á vef BBC segir að ný stjórn verði mynduð á þinginu fyrir þriðjudag. Hann telur það algert forgangsverkefni að mynda þjóðstjórn í landinu.

Þingið hefur einnig samþykkt að leggja hald á sveitasetur forseta landsins, Viktors Janúkovitsj, en ekki hefur enn fengist staðfest hvar Janúkovitsj er niðurkominn.

Fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Júlía Tímosjenko, ávarpaði í gær mótmælendur á sjálfstæðistorginu í Kænugarði eftir að hafa verið sleppt úr haldi. Hún brast í grát á torginu og sagði mótmælendurna vera raunverulegar hetjur landsins en Tímosjenko hefur setið í fangelsi frá árinu 2011 fyrir meinta spillingu starfi.

Skiptar skoðanir voru um ræðu hennar og er óvíst hvort hún á afturkvæmt í úkraínsk stjórnmál vegna kröfu almennings um algera endurnýjun í stjórnmálum landsins. Þá hefur, Vitaly Klitschko, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Uda,r lýst því yfir að hann muni bjóða sig fram til forseta í komandi kosningum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×