Fótbolti

Carroll: Ætlum að valda United vandræðum

Roy Carroll í leik með norður-írska landsliðinu.
Roy Carroll í leik með norður-írska landsliðinu. Vísir/Getty
Norður-Írinn Roy Carroll, fyrrum markvörður Manchester United, mætir sínu gamla félagi í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Carroll fór frá United fyrir níu árum síðan og er nú á mála hjá gríska liðinu Olympiakos sem tekur á móti United í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum á morgun.

„Þeir virðast taugaóstyrkir,“ sagði Carroll við enska fjölmiðla. „Andstæðingar þeirra virðast alltaf líklegir til að skora og það er skrýtið. Manni finnst það ekki tengjast Manchester United.“

Það er þó óvíst að Carroll verði í markinu annað kvöld þar sem hann hefur ekki verið aðalmarkvörður Olympiakos í vetur. En reynsla hans hjá United gæti reynst Grikkjunum vel.

„Manchester United hefur átt erfitt uppdráttar og sjálfstraustið hjá okkar leikmönnum er gott. Við teljum að við getum gert góða hluti í þessum tveimur leikjum og valdið þeim vandræðum.“

„Við vonumst til að geta haldið hreinu á heimavelli og ef það tekst getum við vel skorað á Old Trafford. Við höfum verið að skoða varnarleik United vel að undanförnu.“

Caroll spilaði síðast með United í bikarúrslitaleiknum gegn Arsenal árið 2005. Þá tryggði Patrick Vieira Lundúnarliðinu titilinn í vítaspyrnukeppni. Síðan þá hefur Carroll leikið með West Ham, Rangers, Derby, OB, OFI Crete og nú Olympiakos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×