Körfubolti

NBA í nótt: Þriðja tap Oklahoma City í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ekkert hefur gengið hjá Oklahoma City, efsta liði vesturdeildarinnar, eftir stjörnuhelgina í NBA-deildinni.

Liðið hefur tapað öllum þremur leikjum sínum eftir stjörnuhelgina en í nótt mætti liðið Cleveland á heiamvelli og tapaði, 114-104.

Kyrie Irving skoraði 31 stig fyrir Cleveland í leiknum, þar af fjórtán í fjórða leikhluta. Jarrett Jack bætti við 21 stigi en Tristan Thompson var með ellefu stig og ellefu fráköst.

Kevin Durant skilaði flottum tölum eins og venjulega en það dugði ekki til. Hann var með 28 stig, tíu fráköst og níu stoðsendingar. Russell Westbrook var með 24 stig og níu stoðsendingar fyrir Oklahoma City.

Cleveland er í tíunda sæti austurdeildarinnar og þremur sigrum á eftir Brooklyn og Atlanta sem eru í sjöunda og áttunda sætinu.



LA Clippers vann Houston, 101-93. Blake Griffin var með 23 stig og sextán fráköst en þetta var sjötti sigur Clippers í síðustu átta leikjum liðsins.

DeAndre Jordan var með þrettán stig og tíu fráköst en þetta var 30. tvöfalda tvennan hans á tímabilinu. Dwight Howard skoraði 23 stig fyrir Houston og James Harden átján.



LA Lakers tapaði enn einum leiknum, í þetta sinn fyrir Memphis, 108-103. Courtney Lee var með átján stig og Marc Gasol fjórtán auk þess að taka tólf fráköst.

Lakers spilaði þó vel í fjórða leikhluta og náði að minnka muninn í þrjú stig á lokamínútunni. Nær komst liðið þó ekki. Jodie Meeks var stigahæsti leikmaður Lakers með nítján stig.

Lakers er í neðsta sæti vesturdeildarinnar með næstversta árangur allra liða í NBA-deildinni.

Úrslit næturinnar:

Philadelphia - Orlando 90-101

Boston - Atlanta 115-104

Chicago - Golden State 103-83

Dallas - New Orleans 108-89

Memphis - LA Lakers 108-103

Oklahoma City - Cleveland 104-114

San Antonio - Detroit 120-110

Utah - Phoenix 109-86

Portland - Brooklyn 124-80

LA Clippers - Houston 101-93

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×