Körfubolti

Hannes: Viljum ráða nýjan þjálfara á næstu tveim vikum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hannes ásamt Peter Öqvist, fráfarandi landsliðsþjálfara.
Hannes ásamt Peter Öqvist, fráfarandi landsliðsþjálfara.
„Þetta hefur legið í loftinu undanfarnar vikur en við vildum reyna það til fullnustu hvort þetta væri hægt,“ segir formaður KKÍ, Hannes S. Jónsson, en í morgun var tilkynnt að Svíinn Peter Öqvist myndi láta af þjálfun íslenska karlalandsliðsins.

„Eiginkona hans mun fæða þeirra þriðja barn eftir sex til átta vikur. Hann er mikið frá allan veturinn og langaði að vera heima hjá sér í sumar,“ segir Hannes.

Samkvæmt heimildum Vísis þá er Öqvist þess utan vongóður um að fá landsliðsþjálfarastarfið í heimalandinu. Hann er einn af nokkrum sem koma til greina í starfið.

„Við vissum strax í haust að það væru helmingslíkur á því að hann yrði áfram. Svona fór þetta og þá þarf að skoða framhaldið.“

Stjórn KKÍ mun hittast á miðvikudag og ákveða hvaða stefna verður tekin í framhaldið.

„Við eigum eftir að ákveða hvort við viljum erlendan eða innlendan þjálfara. Við erum svolítið seinir á ferðinni og viljum ráða mann á næstu tveim vikum þannig að við gætum verið svolítið seinir að ráða erlendan þjálfara.“

Hannes vildi ekki gefa upp nein nöfn á mögulegum landsliðsþjálfurum enda væri ekkert ákveðið í þeim efnum.

„Við höfum ekki rætt við neina á bak við tjöldin. Við höfum samt velt aðeins fyrir okkur nokkrum nöfnum en nú er næst á dagskrá að ræða við einhverja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×