Innlent

Mótmæli vegna lekamálsins

Jakob Bjarnar skrifar
Hanna Birna, Omos og innanríkisráðuneytið en þar stendur til að mótmæla í hádeginu á morgun.
Hanna Birna, Omos og innanríkisráðuneytið en þar stendur til að mótmæla í hádeginu á morgun.
Sérstök síða á Facebook hefur verið stofnuð þar sem boðað er til mótmæla fyrir framan innanríkisráðuneytið í hádeginu á morgun. Tilefnið er hið svokallaða lekamál. Stofnandi síðunnar er Sólveig Anna Jónsdóttir og þegar hafa um hundrað manns boðað komu sína.

Á síðunni segir að fyrir tveimur og hálfum mánuði var minnisskjali um flóttamann á Íslandi lekið til fjölmiðla. „Fjölmiðlarnir sem birtu það sögðu að það kæmi úr innanríkisráðuneytinu. Þeir sem hafa séð blaðið segja augljóst að það komi þaðan. Innanríkisráðuneytið hefur ekki beðið fjölmiðla að leiðrétta það. Engu að síður hefur það dregið fæturna með að upplýsa þennan glæp.“

Þá er rakið að flóttamaðurinn, Tony Omos, hafi verið fluttur úr landi í lögreglufylgd og sagt að svo virðist sem minnisblaðinu hafi verið ætlað að koma höggi á hann, það hafi haft afdrifarík áhrif á líf Omos og samferðafólk hans.

„Í ljósi þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir og starfsfólk hennar sætir lögreglurannsókn vegna lekans og hafa gert ítrekaðar tilraunir til að takmarka umræðu um málið krefjumst við þess að hún víki á meðan á rannsókn stendur. Fjölmennum, gefum smákökur, höldumst í hendur og biðjum um skýr svör. Mætum og lætum!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×