Innlent

Dæmi um undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Skýrsluhöfundar segja að veigamiklar breytingar hafi orðið á sjávarútvegsstefnu ESB í gegnum tíðina.
Skýrsluhöfundar segja að veigamiklar breytingar hafi orðið á sjávarútvegsstefnu ESB í gegnum tíðina.
Erfitt er fyrir umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu að fá varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu þess, að því er fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna við ESB, sem verður kynnt í dag. Hins vegar eru dæmi um að gerðar hafi verið breytingar á lögum sambandsins til að fást við sérstök vandamál.

Hægt er að hala niður niðurstöðukafla skýrslunnar hér að neðan.

„Reynsla af inngöngu annarra þjóða sýnir að erfiðlega hefur gengið að fá varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins,“ segir í skýrslunni.

„Hins vegar hafa fengist tímabundnar undanþágur og í sumum tilfellum hefur tekist að fá fram breytingar í löggjöf sambandsins til að eiga við sérstök vandamál sem upp hafa komið. Þannig fengu Maltverjar undanþágur frá fiskveiðistefnunni þar sem mælt er fyrir um breytingar á reglugerð um tæknilegar verndarráðsstafanir vegna viðgangs fiskistofna í Miðjarðarhafi. Skyldu þessar breytingar ganga í gegn áður en Malta yrði meðlimur í Evrópusambandinu. Þessar tilhliðranir er nú að finna í gerðum Evrópusambandsins og þeim verður einungis breytt á vettvangi þess.“

Ísland sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði?

Skýrsluhöfundar segja að veigamiklar breytingar hafi orðið á sjávarútvegsstefnu ESB í gegnum tíðina.

„Meðal nýjunga er að áhersla er lögð á að einungis höfuðmarkmiðin séu ákvörðuð sameiginlega meðan útfærsla og ákvaðanavald um það hvernig þeim markmiðum sé náð eru færð nær heimabyggð, þ.e. til einstakra aðildarlanda eða jafnvel héraða. Þá er aukin áhersla lögð á hlutverk svæðisbundinna ráðgjafaráða. Hugsanlega væri hægt að hugsa sér að Ísland yrði skilgreint sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði innan sameiginlegrar fiskveiðistjórnunarstefnu Evrópusambandins, en hvaða þýðingu það hefði fyrir stjórn fiskveiða hér við land er óljóst, m.a. vegna þess að stjórnunin sjálf væri þá háð Evrópureglum. Eftir stendur að þau lönd sem sækja um aðild að Evrópusambandinu gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu og allar breytingar á henni í framtíðinni verða einungis ákveðnar á vettvangi sambandsins,“ segir í skýrslunni.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að reynsla annarra þjóða sýni að erfitt hafi reynst að fá varanlegar undanþágur frá sameiginlegri stefnu ESB, enda þýði aðild að land taki upp hina sameiginlegu stefnu. Hægt sé að fá tímabundnar undanþágur, en ær séu teknar upp í gerðri sambandsins og breytingar á þeim verði eingöngu gerðar á grundvelli þess. „Þegar um er að ræða sérlausnir, sem kann að verða samið um, þarf að taka skýrt fram í aðildarsamningi um það ef þær eiga að verða varanlegar.“

Erfiðar samningaviðræður

Skýrsluhöfundar segja óheppilegt varðandi mat á stöðu viðræðnanna að ekki skyldi auðnast að leggja fram samningsafstöðu varðandi fjóra kafla, þar á meðal sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann.

Það sé því erfitt að átta sig á hver framvinda viðræðna um sjávarútvegsmál hefði orðið. „...ljóst er að erfitt hefði verið að semja út frá þeim áherslum sem lagðar eru í meirihlutaáliti utanríkisnefndar sem lagt var fram þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild. Má þar nefna atriði eins og formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi,“ segir í skýrslunni.

Meðfylgjandi er niðurstöðukafli skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×