Enski boltinn

Bæjarar búast við mikilli hörku frá Arsenal-mönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller og Pep Guardiola.
Thomas Müller og Pep Guardiola. Vísir/Getty
Leikmenn Bayern München búa sig undir harðan leik á móti Arsenal á morgun þegar liðin mætast í fyrri leik sínum í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Bayern-liðið hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu 34 leikjum sínum í öllum keppnum og hefur auk þess titil að verja í Meistaradeildinni.

„Þetta verður erfiður leikur fyrir okkur í London. Við verðum að fara alla leið upp að sársaukaþröskuldinum," sagði sóknarmaðurinn Thomas Müller við BBC.

Einu töp Bayern á leiktíðinni hafa verið á móti Borussia Dortmund í Meistarakeppninni í júlí og á móti Manchester City í lokaleik riðlakeppninnar. Liðið vann alla titla í boði á síðustu leiktíð en hefur samt tekist að bæta leik sinn enn frekar eftir að Spánverjinn Pep Guardiola tók við liðinu.

Bayern München sló Arsenal út úr sextán liða úrslitum Meistarakeppninnar í fyrra en Bæjarar unnu þá fyrri leikinn 3-1 í London. Bæði liðin hafa verið á toppnum í sínum deildum á leiktíðinni en á meðan Bayern hefur náð 16 stiga forskoti í Þýskalandi þá hefur Arsenal tapað toppsætinu í ensku úrvalsdeildinni til Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×