Fótbolti

Fyrrum þjálfari Evrópumeistaraliðs Spánverja látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gamli maðurinn var tolleraður eftir sigurinn á EM en Luis Aragones var þá 69 ára gamall.
Gamli maðurinn var tolleraður eftir sigurinn á EM en Luis Aragones var þá 69 ára gamall. Vísir/Getty
Luis Aragones, sá sem gerði Spánverja að Evrópumeisturum árið 2008, lést í nótt 75 ára að aldri. Mögnuð sigurganga spænska landsliðsins í fótbolta hófst með þessum sigri á EM í Austurríki og Sviss fyrir tæpum sex árum en Aragones var upphafsmaðurinn af hinu árangursríka leikkerfi liðsins.

Aragones átti farsælan feril sem bæði leikmaður og þjálfari en hann stýrði meðal annars bæði Barcelona og Atlético Madrid auk þess að þjálfa spænska landsliðið í fjögur ár frá 2004 til 2008.

Atlético Madrid minntist Luis Aragones í morgun sem einnar mestu gosagnarinnar í sögu félagsins en Aragones varð þrisvar meistari með liðinu sem leikmaður (172 mörk í 372 leikjum) og gerði Rojiblancas síðan að spænskum meisturum árið 1977.

Luis Aragones þjálfaði síðast tyrkneska félagið Fenerbahce en það gekk ekki vel og hann hætti eftir eitt tímabil. Lið hans unnu alls 486 leiki af þeim 1048 sem hann stjórnaði frá 1974 til 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×