Fótbolti

Messi skaut Barcelona á toppinn á ný

Pedro og Messi fagna marki Messi í rigningunni.
Pedro og Messi fagna marki Messi í rigningunni. Vísir/Getty
Barcelona lagði Sevilla 4-1 í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Gæði Lionel Messi skildi liðin að í kvöld en Messi skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

Alberto Moreno kom Sevilla yfir á 15. mínútu en Barcelona jafnaði metin gegn gangi leiksins á 34. mínútu. Alexis Sanches skallaði aukaspyrnu Messi í netið en Sanches var greinilega rangstæður þegar aukaspyrnan var tekin en markið fékk samt að standa.

Messi kom sjálfur Barcelona yfir á 44. mínútu með glæsilegu skoti rétt utan teigs. Messi sýndi frábæra tækni sína þegar hann lyfti boltanum upp áður en hann smellti honum í hornið.

Það var slagveðursrigning í Sevilla og hífandi rok en það kom ekki niður á skemmtanagildi leiksins.

Leikurinn var galopinn og fékk Sevilla góð færi til að jafna metin en ef þú nýtir ekki færin þá refsar Messi. Hann kom Barcelona í 3-1 á 56. mínútu með góðu skoti í stöngina og inn eftir skyndisókn.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður var leikurinn hin besta skemmtun og var sigur Barcelona allt annað en auðveldur þó tölurnar kunni að gefa annað til kynna.

Cesc Fabregas gerði þó út um leikinn á 88. mínútu með laglegu marki eftir skyndisókn.

Barcelona er komið á topp deildarinnar með sigrinum en þrjú lið eru efst og jöfn með 57 stig. Barcelona er efst því liðið er með 46 mörk í plús. Real Madrid er annað með 41 mark plús og Atletico Madrid kemur næst með 40 mörk í plús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×