Erlent

Mótmælandi pyntaður í Úkraínu

Haukur Viðar Alfreðsson og Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bulatov segir að sér hafi verið rænt og hann pyntaður.
Bulatov segir að sér hafi verið rænt og hann pyntaður. vísir/afp
Úkraínski stjórnarandstæðingurinn Dmytro Bulatovfannst illa útleikinn í útjaðri Kænugarðs í gærkvöldi.

Hann hvarf sjónum manna í síðustu viku og segir að sér hafi verið rænt og hann pyntaður. Að því loknu hafi hann verið skilinn eftir helsærður í kuldanum, en hluti annars eyra Bulatov hafði verið skorinn af. Þá segist hann hafa verið barinn illa og hengdur upp á úlnliðunum.

„Þeir krossfestu mig, þeir negldu niður hendurnar á mér. Þeir skáru af mér eyrað, þeir skáru í andlitið á mér. Það er ekki einn blettur á líkama mínum sem ekki hefur sætt barsmíðum,” hefur AP fréttastofan eftir Búlatov.

Hann segir að sér hafi verið haldið í myrkri allan tímann og geti því ekki borið kennsl á árásarmennina. Þegar hann fannst voru föt hans og andlit alblóðug, hendurnar bólgnar og greinileg naglaför á þeim. Búlatov er 35 ára gamall og hefur tekið virkan þátt í mótmælunum gegn Viktor Janúkóvitsj forseta.

Tveir aðrir mótmælendur hafa horfið skyndilega á síðustu vikum. Annar þeirra fannst látinn en hinn fannst einnig úti í skógi eftir að hafa sætt barsmíðum.

Stjórnarandstæðingar hafa sakað stjórnvöld um að standa að baki þessum árásum í þeim tilgangi að hræða mótmælendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×