Körfubolti

Diamber Johnson fór ekki langt - samdi við Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diamber Johnson.
Diamber Johnson. Vísir/Pjetur
Diamber Johnson var ekki lengi að finna sér nýtt lið í Dominos-deild kvenna eftir að hún var látin fara frá Hamar í vikunni. Á umboðssíðu leikmannsins kemur fram að hún hafi samið við Íslandsmeistaralið Keflavíkur.

Falur Harðarson, formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, staðfestir samninginn við Diamber Johnson en segir að Porsche Landry sé enn leikmaður Keflavíkur. Keflavík mætir Haukum í undanúrslitum bikarsins á sunnudagskvöldið.

„Ekkert hefur verið ákveðið með Porsche og eins og staðan er í dag er hún leikmaður Keflavíkur. Okkur bauðst hins vegar að bæta Diamber við hópinn og þar sem glugginn lokar i dag var ákveðið að semja við hana og taka ákvörðun með framhaldið í næsta mánuði," sagði Falur í samtali við Vísi.

Porsche Landry er með 20,3 stig og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.  Keflavík vann átta af fyrstu níu leikjunum með Landry í leikstjórnendahlutverkinu en hefur tapaði 6 af síðustu 11 leikjum þar á meðal síðustu tveimur á móti liðum mun neðar í töflunni.

Diamber Johnson var þriðji stigahæsti leikmaður Dominos-deildar kvenna með 22,9 stig að meðaltali í leik í 19 leikjum með Hamar og var auk þess fjórða í stoðsendingum með 5,4 slíkar að meðaltali í leik.

Fari svo sem allt stefnir í það JOhnson komi í stað Landry þá hafa sex af átta liðum í Dominos-deild kvenna skipt um bandarískan leikmann á þessu tímabili. Það eru þá aðeins topplið Snæfells og Haukar sem hafa enn sama erlenda leikmann og þegar leiktíðin hófst.

Lele Hardy spilar með Haukum (28,2 stig og 20,1 fráköst í leik) og er besti leikmaður deildarinnar en Chynna Unique Brown er líka að spila mjög vel í Hólminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×