Körfubolti

Dramatískur sigur KFÍ - Joshua Brown með 49 stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mirko Stefán Virijevic hjá KFÍ.
Mirko Stefán Virijevic hjá KFÍ. Vísir/Daníel
KFÍ vann dramatískan og gríðarlega mikilvægan eins stigs sigur á Skallagrími, 83-82, í kvöld í 15. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta en með honum náðu Ísfirðingar Borgnesingum að stigum í baráttunni fyrir lífi sínu í deildinni.

Joshua Brown átti magnaðan leik fyrir KFÍ en hann skoraði alls 49 stig í leiknum, 27 stig í fyrri hálfleik og 22 stig í seinni hálfleik. Mirko Stefán Virijevic var líka öflugur með 26 stig og 15 fráköst.  KFÍ náði að vinna leikinn þrátt fyrir að aðeins fjórir leikmenn liðsins skoruðu í leiknum.

Páll Axel Vilbergsson skoraði 36 stig fyrir Skallagrím en hann hitti úr 9 af 14 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Miklu munaði um það fyrir Skallagrím að Benjamin Curtis Smith klikkaði á tólf fyrstu skotum sínum og nýtti á endanum aðeins 3 af 18 skotum sínum í leiknum. Hann náði samt þrefaldri tvennu, var með 14 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar.

Páll Axel Vilbergsson skoraði 29 stig í fyrri hálfleik og Skallagrímur var þremur stigum yfir í hálfleik, 46-43. Páll Axel skoraði meðal annars fimm þrista á fyrstu fimm mínútum sem Skallagrímur vann 15-4.

KFÍ snéri við leiknum með því að vinna þriðja leikhlutann 26-13 þar sem að Joshua Brown skoraði 14 stig og KFÍ hélt áfram frumkvæðinu í lokaleikhlutanum.

KFÍ var níu stigum yfir þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum en Skallagrímsmenn náðu að minnka muninn niður í eitt stig og Benjamin Curtis Smith fékk síðan tækifæri til að tryggja sínu liði sigurinn í blálokin. Skot Smith klikkaði og KFÍ-menn fögnuðu mikilvægum sigri.



KFÍ-Skallagrímur 83-82 (16-20, 27-26, 26-13, 14-23)

KFÍ: Joshua Brown 49/8 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 26/15 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 6/4 fráköst, Valur Sigurðsson 2.

Skallagrímur: Páll Axel Vilbergsson 36/7 fráköst, Benjamin Curtis Smith 14/12 fráköst/10 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 10/4 fráköst, Orri Jónsson 9, Egill Egilsson 8/4 fráköst, Davíð Ásgeirsson 2, Trausti Eiríksson 2, Sigursteinn Orri Hálfdánarson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×