Sport

Seattle mætir Denver í Ofurskálinni | Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pete Carroll þjálfari var hinn hressasti eftir sigurinn í nótt.
Pete Carroll þjálfari var hinn hressasti eftir sigurinn í nótt. Mynd/Heimasíða Seahawks
Sterkasta varnarlið NFL-deildarinnar, Seattle Seahawks, tryggði sér í nótt sæti í leiknum um Ofurskálina (e. Superbowl) eftir 23-17 sigur á erkifjendunum í San Francisco 49ers í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar.

Leikurinn í Seattle var æsispennandi frá upphafi til enda en þar fóru liðin tvö sem eru af flestum talin sterkustu varnarlið deildarinnar. Russell Wilson, leikstjórnandi heimamanna, virkaði stressaður framan af leik en átti eftir að blása á gagnrýnisraddir eins og svo oft áður.

Gestirnir komust í 3-0 í fyrsta leikhluta og Seattle komst ekki á blað fyrr en í öðrum leikhluta. Áfram hélt spennan en tvenn mistök Colin Kaepernick, leikstjórnanda 49ers, komu Sjóhaukunum í góða stöðu í lokafjórðungnum. Úrslitin réðust þó ekki fyrr en á lokasekúndunum þegar sending Kaepernick, þegar 49ers voru komnir í námunda við snertimark, hafnaði í röngum höndum. Háværir heimamenn fögnuðu því að vera komnir í Ofurskálina í annað skiptið á átta árum.

Seattle mætir Peyton Manning og félögum í Denver Broncos. Manning fór á kostum í sigri á Tom Brady og félögum í New England Patriots fyrr í gær. Úrslitaleikurinn fer fram í New Jersey þann 2. febrúar og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport líkt og leikirnir í nótt.

Allt það helsta úr leiknum í nótt má sjá hér.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×