Erlent

Áframhaldandi ofbeldi í Kænugarði

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ofbeldi hefur stigmagnast eftir að lög tóku gildi sem bönnuðu mótmæli.
Ofbeldi hefur stigmagnast eftir að lög tóku gildi sem bönnuðu mótmæli. vísir/afp
Viktor Yanukovych, forseti Úkraínu, bauð í gær stjórnarandstöðumönnum að taka sæti forsætisráðherra og vara- forsætisráðherra í þeim tilgangi að binda endi á mótmæli og stigvaxandi ofbeldi í Kænugarði. Stjórnarandstaðan hefur nú hafnað tilboðinu.

Mótmælin í Úkraínu hafa að mestu farið friðsamlega fram undanfarna tvo mánuði, en eftir að Yanukovych forseti tilkynnti í síðustu viku um ný lög sem bönnuðu með öllu mótmæli í landinu urðu átökin harðari og ofbeldi stigmagnaðist. Forsetinn sagði svo á fundi með trúarlegum leiðtogum á föstudag að hann myndi ábyrgjast að mótmælendalögunum yrði breytt þannig að þeir sem handteknir voru fyrir litlar sakir myndu verða frjálsir ferða sinna. Stjórnarandstaðan krafðist þess þá að hann segði af sér og að boðað yrði til kosninga.

Stjórn og stjórnarandstaða funduðu í gær þar sem Yanukovych reyndi að miðla málum og bauð leiðtogum stjórnarandstöðunnar að taka sæti forsætisráðherra og vara-forsætisráðherra. Skilyrðin fyrir tilboðinu voru að lög sem banna mótmæli í landinu yrðu ekki felld úr gildi og ekki yrði boðað til kosninga á næstunni. Stjórnarandstaðan hafnaði tilboðinu, og ætlar sér að ná völdum í næstu forsetakosningum.

Til harðra átaka kom í Kænugarði í nótt en mótmælendur hafa náð ráðhúsinu þar í borg á sitt vald. Hundruð mótmælenda eru eftirlýstir af lögreglu og hafa hátt í fjörtíu verið handteknir. Stjórnarandstaðan segir sex hafa látið lífið í mótmælunum í síðustu viku, en lögreglan hefur staðfest þrjú dauðsföll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×