Erlent

Forsætisráðherra Úkraínu segir af sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Mykola Azarov, Forsætisráðherra Úkraínu, sagði af sér embætti í morgun.
Mykola Azarov, Forsætisráðherra Úkraínu, sagði af sér embætti í morgun. Vísir/AP Images
Mykola Azarov, Forsætisráðherra Úkraínu, sagði af sér embætti í morgun. Með afsögn sinni vildi forsætisráðherrann hjálpa til við að koma á friðsamlegum enda deilunnar sem staðið hefur yfir í tvo mánuði. Þá hefur þing Úkraínu fellt úr gildi lög sem takmarka rétt fólks til mótmæla. Þrír mótmælendur hafa látist í átökum við lögreglu eftir að hin umdeildu lög voru sett á fyrr í mánuðinum.

Forseti landsins, Viktor Yanukovych á eftir að samþykkja afsögn Azarov, en það virðist eingöngu vera formsatriði. Forsetinn bauð Arseniy Yatsenyuk, einum af leiðtogum stjórnarandstöðunnar, forsætisráðherrastólinn í síðustu viku. Hann hafnaði þó boðinu í gær.

Að auki boðaði forsetinn að tugir mótmælenda yrðu náðaðir ef mómælendur yfirgæfu göturnar og þær byggingar sem búið er að yfirtaka. Afsögn forsætisráðherrans er ekki líkleg til að stöðva mótmælin þar sem mótmælendur hafa einnig farið fram á afsögn forsetans og að kallað verði til nýrra kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×