Körfubolti

Njarðvíkingar unnu 49 stiga sigur í fyrsta leik Tracy Smith

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tracy Smith yngri .
Tracy Smith yngri . Mynd/NordicPhotos/Getty
Tracy Smith yngri byrjar vel í Ljónagryfjunni en hann var með 29 stig og 15 fráköst á 32 mínútum í 49 stiga sigri Njarðvíkur á KFÍ, 113-64, í Njarðvík í kvöld í tólftu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta.

Njarðvíkingar áttu ekki í miklum vandræðum með Ísafirðinga í þessum leik og það er ljóst að leikurinn var ekki alvörupróf fyrir umræddan Tracy Smith sem var fenginn til Njarðvíkur til þess að styrkja liðið undir körfunni.

Tracy Smith opnaði greinilega fyrir aðra í Njarðvíkurliðinu því fjórir leikmenn liðsins skoruðu þrettán stig eða meira. Logi Gunnarsson skoraði 19 stig, Elvar Már Friðriksson var með 17 stig og 9 stoðsendingar og Ágúst Orrason skoraði 16 stig.

Njarðvíkingar tóku öll völd í byrjun leiks, komust í 14-2, 23-7 og voru með 17 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, 28-11. Njarðvíkingar gáfu ekkert í öðrum leikhlutanum sem skilaði þeim 35 stiga forskoti í hálfleik, 61-26.

Fjórir leikmenn Njarðvíkurliðsins voru komnir með tíu stig eða meira eftir fyrri hálfleikinn og nýi miðherjinn, Tracy Smith yngri var með 16 stig og 8 fráköst í hálfleiknum.

KFÍ skoraði 8 af fyrstu 10 stigum seinni hálfleiks en það dugði skammt og munurinn var enn 30 stig, 79-49, við lok þriðja hlutans. Njarðvíkingar áttu því ekki í miklum vandræðum með að landa fyrsta sigri sínum á nýju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×