Bíó og sjónvarp

Sjóræningjaútgáfa af Walter Mitty rakin til Óskarskynnis

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
The Secret Life of Walter Mitty var tekin að stórum hluta hér á landi.
The Secret Life of Walter Mitty var tekin að stórum hluta hér á landi. mynd/getty
Sjóræningaútgáfa af kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty sem sett hefur verið inn á skráarskiptisíður er merkt sjónvarpsþættinum The Ellen DeGeneres Show. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi 20th Century Fox-kvikmyndaversins við tímaritið Variety.

Hann segir að svo virðist sem vatnsmerki sem notað er til að rekja eintök kvikmynda til eigenda þeirra sé ósvikið, en 20th Century Fox sendi eintak til sjónvarpsþáttarins síðasta haust.

Framleiðendur þáttarins segjast ekki vissir um hvort umræddu eintaki myndarinnar hafi verið „lekið“ en málið er í rannsókn innan herbúða DeGeneres og er litið alvarlegum augum. „Við gerum allt sem við getum til þess að tryggja að efni sem okkur er sent sé öruggt,“ segja framleiðendurnir og bæta því við að aldrei fyrr hafi kynningarefni frá þeim lekið á internetið.

Málið er einkar óheppilegt í ljósi þess að DeGeneres er aðalkynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni þann 2. mars, helstu verðlaunahátíðar kvikmyndabransans í Bandaríkjunum. Talsmaður Fox tekur þó fram að ekki sé um Óskarsverðlaunaeintak að ræða, svokallað „screener“-eintak, en slíkum eintökum er dreift til meðlima Óskarsakademíunnar og annarra sem að hátíðinni koma. Þau eintök séu merkt á öðruvísi hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×