Körfubolti

Snæfellskonur á svaka siglingu í kvennakörfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfellskonur eru að spila vel þessa dagana.
Snæfellskonur eru að spila vel þessa dagana. Mynd/Valli
Snæfellsliðið er á svaka siglingu í Domnios-deild kvenna í körfubolta en liðið fór í Ljónagryfjuna í kvöld og vann 35 stiga sigur á heimastúlkum í Njarðvík, 94-59. Þetta er sjötti deildarsigur Snæfells í röð og alla hefur liðið unnið með þrettán stigum eða meira.

Snæfellsliðið tók völdin strax í byrjun og 25-8 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Snæfell var síðan 25 stigum yfir í hálfleik, 48-23, og vann þriðja leikhlutann 27-13.

Njarðvíkurkonur eru á botni deildarinnar en komu á óvart með því að vinna KR á útivelli í síðustu umferð og höfðu unnið tvo af þremur fyrstu leikjum sínum undir stjórn Agnars Gunnarssonar. Í kvöld áttu hið unga Njarðvíkurliðið enga möguleika.

Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði Snæfellsliðsins, hefur verið frábær í sigurgöngunni og hún gældi við þrennuna í kvöld. Hildur endaði leikinn með 10 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Í aðalhlutverkum voru líka þær Chynna Brown (27 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar), Hildur Björg Kjartansdóttir (15 stig), Hugrún Valdimarsdóttir (14 stig) og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir (12 stig). Nikitta Gartrell skoraði mest fyrir Njarðvík eða 15 stig.

Snæfell hafði á undan unnið Hamar (+13), Val (+23), Grindavík (+14), Keflavík (+26) og Hauka (+13) og vantar nú aðeins sigur á KR í næsta leik til þess að vinna öll lið deildarinnar í einum rykk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×