Körfubolti

Páll Axel og Smith sjóðheitir í Stykkishólmi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Páll Axel Vilbergsson.
Páll Axel Vilbergsson. Vísir/Vilhelm
Páll Axel Vilbergsson og Benjamin Curtis Smith fóru á kostum í fjórtán stiga sigri Skallagríms á Snæfelli, 98-84, í Stykkishólmi í kvöld í 13. umferð Domnios-deildar karla í körfubolta.

Páll Axel skoraði 30 stig í leiknum þar af 21 í fyrri hálfleiknum sem Skallagrímsmenn unnu 52-41. Páll Axel skoraði sjö þriggja stiga körfur í leiknum en hann hitti úr 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik.

Benjamin Curtis Smith (49 stig, 6 stoðsendingar) var í miklu stuði eins og Páll Axel og Hólmararnir réðu ekkert við þessa tvo frábæru leikmenn sem voru með 79 stig og 14 þriggja stiga körfur saman í kvöld. Skallagrímsliðið skoraði alls sextán þrista í leiknum eða níu fleiri en Snæfellsliðið.  

Skallagrímsmenn voru búnir að tapa fjórum leikjum í röð fyrir leikinn og fengu þarna mjög dýrmæt stig í fallbaráttunni.

Snæfellsliðið varð hinsvegar að sætta sig við þriðja tapið í röð og enn eftir að vinna leik með nýja Bandaríkjamanninn Travis Cohn III innanborðs. Cohn var með 11 stig, eina stoðsendingu og fimm villur í leiknum í kvöld. Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur hjá Snæfelli með 26 stig.

Snæfell-Skallagrímur 84-98 (18-30, 23-22, 17-24, 26-22)

Snæfell: Sigurður Á. Þorvaldsson 26/10 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 11/10 fráköst/5 stoðsendingar, Travis Cohn III 11, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 11/5 stoðsendingar, Kristján Pétur Andrésson 11/4 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 6/5 fráköst, Snjólfur Björnsson 6, Stefán Karel Torfason 2.

Skallagrímur: Benjamin Curtis Smith 49/7 fráköst/6 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 30, Egill Egilsson 4/7 fráköst, Davíð Ásgeirsson 4, Trausti Eiríksson 3/7 fráköst, Ármann Örn Vilbergsson 3/4 fráköst, Orri Jónsson 3, Sigurður Þórarinsson 2/4 fráköst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×