Körfubolti

Verða Nigel Moore-áhrifin jafn mikil í Breiðholtinu og í Njarðvík?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel Moore í leik með Njarðvík en hann spilar með ÍR á nýju ári.
Nigel Moore í leik með Njarðvík en hann spilar með ÍR á nýju ári. Mynd/Anton
Nigel Moore spilar áfram í Domino‘s-deild karla í körfu þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi látið leikmanninn fara. Örvar Þór Kristjánsson, þjálfari ÍR og aðstoðarþjálfari Njarðvíkur í fyrravetur, var fljótur til og samdi við leikmanninn.

Þetta er í annað skiptið sem ÍR skiptir um Kana á þessari leiktíð og nú vonast Örvar til að Nigel Moore-áhrifin verði jafn mikil í Breiðholtinu og þau voru í Njarðvík á síðasta tímabili. Þá hækkaði sigurhlutfall Njarðvíkurliðsins um 45 prósent eftir að hann bættist í hópinn.

Njarðvíkingar töpuðu fjórum af fimm fyrstu deildarleikjum sínum í fyrrahaust og Bandaríkjamaðurinn Jeron Belin var látinn fara eftir fjóra leiki. Nigel Moore var fenginn til að leysa hann af en Moore var þá að koma til baka eftir meiðsli.

Nigel var ekkert alltof sannfærandi í fyrstu leikjunum en átti góðan leik í eins stigs útisigri á erkifjendunum í Keflavík.

Eftir aðeins tvo sigra í fyrstu sjö leikjunum voru Nigel Moore og Njarðvíkurhúnarnir komnir í takt og Njarðvíkurliðið vann 8 af síðustu 10 deildarleikjum sínum.

Njarðvík datt síðan út úr úrslitakeppninni eftir magnaðan oddaleik í Hólminum. ÍR-ingar hafa aðeins unnið 2 af fyrstu 11 leikjum sínum og eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Nigel Moore áhrifin

Njarðvík í Dominos-deildinni 2012-13

Fyrir komu Moore: 1 sigur, 4 töp - 20 prósent

Eftir komu Moore: 11 sigrara, 6 töð - 65 prósent

Breyting: + 45 prósent

ÍR í Dominos-deildinni 2012-13

Fyrir komu Moore: 2 sigrar, 9 töp - 18 prósent

Eftir komu Moore: ????






Fleiri fréttir

Sjá meira


×