Skoðun

Hvar og hvernig eiga lífeyrissjóðir að ávaxta fjármuni sína?

Bolli Héðinsson skrifar
Í viðskiptaháskólum í Bandaríkjunum og víðar er notuð sú aðferð að kenna „case“, þ.e. farið er yfir frásagnir þar sem lýst er tilteknum aðstæðum sem nemendur eiga síðan að draga raunhæfar ályktanir af.

Ein þessara frásagna, sem orðin er klassík og kennd í mörgum skólum vestanhafs, greinir frá vinnuvélaframleiðanda í borg einni í miðríkjum Bandaríkjanna þar sem verksmiðjan var nánast eini vinnuveitandinn í borginni og nágrenni hennar. Allt gekk eins og í sögu, vélarnar seldust í stórum stíl, starfsmennirnir voru vel launaðir og lífeyrissjóður þeirra efldist að sama skapi.

Á meðan allt lék í lyndi þótti forráðamönnum lífeyrissjóðsins einsýnt að heppilegast væri að fjárfesta í verðbréfum vinnuvélaframleiðandans sjálfs, bæði var fyrirtækið arðbært og með því væri verið að senda rétt skilaboð um tiltrú starfsmannanna á fyrirtækinu sem þeir unnu hjá.

Síðan fór allt á versta veg. Vinnuvélaframleiðandinn varð gjaldþrota, verksmiðjunni var lokað, starfsmennirnir töpuðu störfum sínum og einnig áunnum lífeyrisrétti þar sem lífeyrissjóðurinn hafði nær eingöngu fjárfest í verðbréfum vinnuveitandans. Þegar hér er komið sögu í umfjölluninni í viðskiptaháskólanum brosa stúdentarnir góðlátlega að ráðamönnum lífeyrissjóðsins og umræða hefst um það hvernig þeir gátu verið svo skammsýnir að fylgja ekki einföldustu reglum fjárstýringar um að dreifa áhættu og hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Hvar er norski olíusjóðurinn ávaxtaður?

Norðmenn tóku snemma þá ákvörðun að ávinningur þeirra af olíuvinnslu yrði að stærstum hluta ávaxtaður í tryggum fjárfestingum annars staðar en í Noregi. Þannig yrðu þeir best varðir fyrir áföllum þegar grípa þyrfti til fjármunanna í sjóðnum.

Íslendingar guma oft af íslenska lífeyriskerfinu sem því fullkomnasta í heimi þar sem það er fjármagnað að fullu með iðgjöldum sjóðfélaga. Reglulega eru uppi kröfur um að lífeyrissjóðirnir leggi fé í alls kyns verkefni innanlands sem aðrir fjárfestar sjá sér ekki hag í að leggja fjármuni sína í.

Hversu skynsamlegt er að íslenskir lífeyrissjóðir leggi fjármuni sína yfirleitt í íslenskar fjárfestingar? Gildir einu hvort það eru verðbréf ríkissjóðs eða fyrirtæki í nýsköpun því allt saman eru þetta fjárfestingar góðra gjalda verðar. Eigum við kannski að láta frásögnina af vinnuvélaframleiðandanum í miðríkjum Bandaríkjanna verða okkur víti til varnaðar?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×