Skoðun

Ógn við réttaröryggi íslenskra kvenna

Heiða Björg Hilmisdóttir og Margrét Lind Ólafsdóttir skrifar
Niðurstöður nýrrar könnunar Háskóla Íslands og Ríkislögreglustjóra meðal starfandi lögreglumanna opinbera ógnvekjandi veruleika um þau kynjaviðhorf og vinnumenningu sem ríkir innan lögreglunnar á Íslandi. Það er grafalvarlegt mál að innan lögreglunnar, útvarðar réttarvörslukerfisins, viðgangist víðtækt kynbundið ofbeldi og kvenfjandsamleg viðhorf eins og könnunin sýnir.

Meðal niðurstaðna er að þrjár af hverjum tíu lögreglukonum hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, oftar en tvisvar sinnum, á undangengnum sex mánuðum, m.a. af hálfu yfirmanns. Einelti karlkyns yfirmanna eða samstarfsmanna er algengt og ekki er brugðist við ítrekuðu einelti af hálfu yfirmanna. Meirihluti kvenkyns lögreglumanna upplifir að karlar og konur hafi ekki jafna möguleika innan lögreglunnar og tvær af hverjum þremur finnst komið öðruvísi fram við þær en karla.

Konur sem sækjast eftir aukinni ábyrgð eða stöðuhækkunum hjá lögreglunni, upplifa að gengið sé fram hjá þeim þegar skipað er í stöður, þrátt fyrir að konur séu almennt með meiri menntun en karlar. Kynjahlutföll meðal yfirmanna lögreglunnar staðfesta það og vaxandi óánægja og brottfall kvenna úr lögreglunni á undanförnum árum skýrist m.a. af þessu.

Skýrsluhöfundur segir að menningin innan lögreglunnar sé óvinveitt konum. Valdahlutföllum sé viðhaldið með kynferðislegri áreitni og ekki komið fram við þær af faglegri virðingu.

Ástandið innan lögreglunnar er alvarleg ógn við réttaröryggi kvenna á Íslandi og því miður er óhjákvæmilegt að setja það í samhengi við ótrúlegt getuleysi réttargæslukerfisins í viðbrögðum við kynferðisofbeldismálum. Fáar kærur og dómar vegna nauðgana, vændiskaupa og annars kynferðisofbeldis tala þar sínu máli.

Við krefjumst þess að þegar verði gripið til ráðstafana til að tryggja öryggi Íslenskra kvenna og skorum á innanríkisráðherra að bregðast tafarlaust við þessari alvarlegu stöðu og uppræti ofbeldið og þau kvenfjandsamlegu viðhorf sem þarna viðgangast þannig að bæði kynin geti treyst því að lögreglan sé raunverulegt skjól og vörn eins og henni ber. Þetta viljum við sjá strax og þá meinum við strax.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×