Körfubolti

Má ekki anda þá er maður bara tekinn út af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Johnston tók við Keflavíkurliðinu í sumar.
Andy Johnston tók við Keflavíkurliðinu í sumar. Mynd/Vilhelm
Keflavíkurhraðlestin er komin á fulla ferð í körfunni undir stjórn nýja lestarstjórans Andys Johnston og fylgdi eftir stórsigrum á Snæfelli (96-70) og KR (89-58) á úrslitahelgi Lengjubikarsins með því að vinna sannfærandi 25 stiga sigur á Stjörnunni, 88-63, í 1. umferð Dominos-deildarinnar á fimmtudagskvöldið.

Keflavíkurliðið hefur unnið tíu af tólf leikhlutum í þessum þremur leikjum og andstæðingarnir hafa aðeins náð að skora 63,7 stig að meðaltali í leik. Aðeins einn leikhluti hefur tapast og það gerðist í undanúrslitaleiknum í Lengjubikarnum þegar Keflavíkurliðið var komið 28 stig yfir í leiknum.

En hvað hefur breyst með komu bandaríska þjálfarans Andys Johnston?

„Menn eru smeykir við nýtt blóð og eru alltaf í botni vegna þess að ef maður andar inni á vellinum er maður bara tekinn út af,“ segir fyrirliðinn Magnús Þór Gunnarsson. Hann segir það líka breyta miklu að fá Guðmund Jónsson inn í liðið.

„Hann er klikkaður varnarmaður og það er æðislegt að spila með honum. Guðmundur var fenginn til okkar til að bæta breiddina og spila þessa hörkuvörn sem hann gerir. Ég veit að Gummi kemur síðan í vetur og tekur einn 30 til 40 stiga leik eins og hann hefur oft gert áður. Ég hlakka bara til að sjá það,“ segir Magnús.

„Mér finnst mjög skrýtið að okkur var bara spáð öðru sætinu þó að við værum búnir að fá þrjá góða Íslendinga og besta varnarmanninn í viðbót við sama lið og í fyrra. Þetta er góð byrjun á góðum vetri hjá okkur,“ segir Magnús Þór. Hann er ekki þekktur fyrir að láta til sín taka í varnarleiknum en finnur sig í svæðisvörninni með félögum sínum.

„Þó að það komi frá mér er rosalega gaman að spila vörn með þessu liði og eftir þessum áherslum sem þjálfarinn er með,“ sagði Magnús Þór eftir sigurinn á Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×